Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 15:13:02 (1212)

1996-11-14 15:13:02# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[15:13]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru örfá atriði. Í fyrsta lagi vil ég að það komi fram að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tekið fram að sú nefnd, sem er að skoða áhrif jaðarskattsins og gera tillögur um breytingar, á að skila fyrir árslok 1996. Hún er undir stjórn Ólafs Davíðssonar. Ég talaði við formann nefndarinnar fyrir nokkru og hann áætlar að hægt sé að standa við það. Það er því ekki búist við því að fyrir jól komi frv. til breytinga í þá átt heldur geymist það til vorþingsins.

Hvað varðar persónuafsláttinn vil ég sérstaklega að það komi fram að við höfum nánast fylgt því fordæmi sem gefið var í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Þáverandi fjmrh., sem var næstur á undan mér, breytti lítils háttar lögum um persónuafsláttinn. (Gripið fram í: Hver var það?) Það er forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson. Það færi kannski best á því að hv. þm. sneri sér til hans með þetta. Það bar að minnsta kosti ekki mikið á slíkum óskum á meðan hann sat hér á hinu háa Alþingi á sínum tíma.

Það er ljóst að okkar tekjuskattskerfi er gífurlega tekjujafnandi. (SvG: Er ráðherrann að lýsa þingmönnum og forseta lýðveldisins?) Ráðherrann hefur þegar sagt það sem hann ætlaði að segja um þessi mál.

Varðandi lífeyrissjóðina þá er það flókið mál og erfitt að skýra það í stuttu máli. Ég skal koma að því síðar. Ég tel að hv. þm. hafi ekki skoðað nægilega vel atriðið sem hann kallar tvísköttun vegna lífeyrisgreiðslna en ég mun ekki geta komið að því fyrr en í svarræðu minni sem verður væntanlega við lok þessara umræðna.