Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 15:21:28 (1216)

1996-11-14 15:21:28# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[15:21]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur nú talað fyrir sínu fyrsta skattamáli í dag. Þetta eru fimm frumvörp sem tengjast fjárlagaafgreiðslunni. Veigamest af þeim er það frv. sem við erum að ræða hér, breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt. Hin fjögur frumvörpin fjalla í fyrsta lagi um samræmingu á tryggingagjaldi, í öðru lagi lækkun á vörugjaldi, í þriðja lagi smávægileg lagfæring í sambandi við fjármagnstekjuskatt og í fjórða lagi breytingar á virðisaukaskatti þar sem ríkisstjórnin er að reyna að leiðrétta mjög alvarleg mistök sem hún stóð fyrir í vor. Ég kýs að ræða málin ekki saman, heldur fara yfir hvert þeirra þegar að þeim kemur í umræðunni. Það frv. sem við erum að ræða núna felur hins vegar í sér mjög veigamiklar efnisbreytingar á skattalögum.

Það er hægt að segja að meginefni og meginhugsun frv. komi fram í athugasemdum við einstakar greinar frv. Þar segir, bæði um 4. og síðan um 5. gr.: ,,Fulltrúar atvinnurekenda hafa ítrekað bent á ...`` Og: ,,Fulltrúar atvinnurekenda hafa um nokkurt skeið óskað eftir ...`` Þetta gengur eins og rauður þráður í gegnum þessi skattafrumvörp hæstv. fjmrh. Það er hvergi talað um fulltrúa launafólks, að fulltrúar stéttarfélaganna hafi óskað eftir ... eða að fulltrúar Alþýðusambandsins hafi farið fram á ... Það er hvergi rætt um það hér í þessu frv.

Það er athyglisvert þegar maður skoðar þessi frumvörp að bera þau saman við skýrslu, þ.e. skattastefnu Vinnuveitendasambandsins, sem ýmsir þingmenn hafa undir höndum og einhverjir hafa e.t.v. lesið því að hér er ekkert verið gera annað en að setja í frumvarpsbúning skattastefnu Vinnuveitendasambandsins. Væri e.t.v. betra að Þórarinn Viðar Þórarinsson talaði fyrir málunum á Alþingi í stað þess að hæstv. fjmrh. geri það. Það færi kannski jafn vel á því.

Nú eigum við kannski ekki að fetta fingur út í það þó að tillögur komi frá Vinnuveitendasambandinu. Þær geta vissulega verið góðar og vera má að svo sé. En öll stefna ríkisstjórnarinnar tekur bara mið af einu sjónarhorni. Þetta er kunnuglegt. Það er samfella í þessum fimm frumvörpum sem ríkisstjórnin leggur hér fram, það er samfella í því þegar maður hugsar til baka hvaða hagsmuni hún hefur verið að verja allt frá því að hún tók við völdum. Það eru hagsmunir vinnuveitenda, atvinnurekenda eins og segir skýrt í frv. Það er ekki einu sinni reynt að fela það. Ríkisstjórnin reynir ekki einu sinni að fela það og segja: stefna ríkisstjórnarinnar, stefna Sjálfstfl., stefna Framsfl., eða hvað þeir heita sem standa formlega að ríkisstjórninni. Þeir eru í sjálfu sér ekkert að fara með þá stefnu hér, þeir fela þetta ekkert. Þeir segja: ,,Fulltrúar atvinnurekenda hafa óskað eftir ...`` og það er það sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að bera fram.

Þegar þetta er rætt er ástæða til að vekja athygli á skýrslu sem kom út hjá Þjóðhagsstofnun fyrir nokkrum dögum sem fjallaði ekki um fyrirtækin, því að það eru til aðilar hér sem fjalla um skattamál einstaklinga. Þjóðhagsstofnun var að fjalla um skattamál einstaklinga. Þar kemur fram margt athyglisvert sem lýsir líka stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Tekjubilið í landinu hefur aukist. Skuldir hafa aukist og eignir hafa minnkað. Fólk í landinu hefur orðið fátækara. Það er hægt að lesa út úr þessari skýrslu, að vísu ekki allt fólk, ekki allir einstaklingar. Sumir hafa það mun betra, bæði tekjulega og eignalega hin síðari missiri. Við skulum ekkert ofmeta þetta eina og hálfa ár sem ríkisstjórnin hefur verið við störf, en það er greinilegt á hvaða braut er haldið.

Það kemur einnig fram í þessari skýrslu að tekjujöfnun í gegnum skatta- og bótakerfið hefur minnkað. Tekjubilið hefur aukist. Tekjur kvenna eru 50% af tekjum karla. Það kemur einnig fram í þessari skýrslu. Það fylgja að vísu ekki með upplýsingar um vinnutíma en við vitum um aðrar kannanir sem sýna að vinnutími er hér þriðjungi lengri en annars staðar. Meðaltekjur hæst launaða hópsins eru 3,5 sinnum tekjur lægsta hópsins. Fyrir 10 árum var þessi munur þrefaldur. Þetta sýnir okkur líka í hvaða átt við höfum verið að stefna.

Það eru 23 þúsund einstaklingar í landinu eignalausir, eiga ekki fyrir skuldum og skulda umfram eignir. Það eru 70 þúsund einstaklingar sem eru með framtaldar tekjur undir 58 þús. kr. á mánuði. Þarna er ekki velferð einstaklinganna eins og skattavelferð fyrirtækjanna sem er alltaf dregin upp af hálfu ríkisstjórnarflokkanna.

Það eru 3% af framteljendum með 11% af tekjunum. Það eru þeir sem best mega sín og þeir geta verið mjög svo ánægðir með skattastefnu ríkisstjórnarinnar bæði eins og hún birtist í þessum frumvörpum og hefur reyndar gert áður.

Lágt skatthlutfall fyrirtækja er staðreynd hér á landi. Íslensk fyrirtæki skila minna til samfélagsins sem hlutfall af landsframleiðslu heldur en gerist í öðrum löndum. Þau vilja samt áfram fá skattalækkanir í stað þess að leggja upp með aðferðafræði, hvernig menn geta hagrætt í rekstri, bætt framleiðni og bætt kaup og kjör og jafnframt sína afkomu. Nei, það er hvorki fjallað um það í þessum frumvörpum né öðrum. Hér er fyrst og fremst verið að tala um lagfæringar og lækkanir á sköttum.

1. gr. þess frv. sem við fjöllum um er fylgigrein fyrir breytingu á staðgreiðslu, þ.e. það á ekki að greiða staðgreiðslu af gengishækkun hlutdeildarskírteina. Á það var bent við afgreiðslu fjármagnstekjuskattsins í vor að þetta yrði ekki framkvæmanlegt. Þetta er útfært betur í einu af frumvörpunum sem verður rætt hér á eftir. Þetta er ekki stórt mál. Hins vegar er þetta tilefni til að rifja upp alla sorgarsöguna í kringum fjármagnstekjuskattinn sem við upplifðum í fyrra. Því að hafi sú skattlagning eitthvað haft með fjármagnstekjuskatt að gera í upphafi, þá varð það síður en svo niðurstaðan. Það sem þá var gert var að lækkaðar voru skattbyrðar á þá sem betur mega sín, á hlutafjáreigendur í landinu, auk sérstakra ívilnana fyrir fyrirtækin. Þetta hafði ekki nokkurn skapaðan hlut með það grundvallarmál að gera, sem við jafnaðarmenn studdum, að það bæri að greiða sambærilegan skatt hvort sem menn hefðu tekjur sínar af vinnu eða af fjármagni. Það er ekki tími til þess að fara nána í þetta núna en það verður gert betur síðar í umfjöllun um það frv.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að nota við útreikning verðbreytingafærslu neysluvísitölu í stað byggingarvísitölu. Hæstv. fjmrh. útskýrði þetta held ég í einni setningu. E.t.v. veit hæstv. fjmrh. ekki nokkurn skapaðan hlut hvað þarna er á ferðinni. Þetta er stór breyting sem þarna er verið að gera. Þetta er vegna klúðurs ríkisstjórnarinnar frá því í vor varðandi endurgreiðsluna virðisaukaskatts á viðhaldi húsa og í tengslum við vörugjald. Við margbentum á það og reyndar allt atvinnulífið eins og það lagði sig. Það var lagst gegn þeim frumvörpum sem menn muna eftir þegar vörugjaldi var breytt sem var fjármagnað með því að lækka endurgreiðslu á virðisaukaskatti við húsbyggjendur. Fyrir utan skattsvikin sem þetta kallaði á þýddi þetta stórkostlega hækkun byggingarvísitölunnar, sem gengur að vísu ekki lengur inn í lánin í landinu en hún gengur inn í útreikning verðbreytingafærslu hjá fyrirtækjum. Og nú er þetta kannski farið að verða dálítið flókið en þetta þýðir að tekjufærsla hjá íslenskum fyrirtækjum hefði orðið hundruð milljóna ef ekki milljörðum króna hærri í árslok ef þessi breyting er ekki gerð. Því byggingarvísitalan hækkar miklu meira en nemur neysluvöruvísitölu, sem á að miða við, og það var vegna þessa klúðurs sem var í því.

[15:30]

Ef hæstv. fjmrh. er að hlusta og vill taka niður spurningar væri mjög vel þegið að hann kæmi að því í sínu svari og léti af samtölum við sína flokksmenn. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um muninn á hækkun byggingarvísitölu og neysluvöruvísitölu innan ársins. Hvað þýðir þetta í reynd í tekjufærslu hjá fyrirtækjum? Hvað hefði þetta þýtt í viðbótartekjuöflun fyrir ríkið ef lögin hefðu verið látin standa óbreytt? Nú felst ég, í sjálfu sér, alveg á að þetta var klúður að miða við byggingarvísitöluna í ár vegna þessara breytinga sem ríkisstjórnin gerði á endurgreiðslu virðisaukaskattsins en þá á ríkisstjórnin og fjmrh. að koma beint framan að fólki og útskýra af hverju þessi breyting er gerð. Það er nefnilega hægt að fara inn í aðra hluti í sambandi við ársreikning, sem þetta gæti líka haft áhrif á, því endurmat og fyrningar miðast við byggingarvísitölu og munu væntanlega gera það áfram. Menn verða að hafa samræmi þar á milli. Þetta er nefnilega ekki eins einfalt mál eins og hæstv. fjmrh. vill vera láta. En þá hefði verið betra að koma einfaldlega beint framan að mönnum um það efni.

Í 3. gr. frv. er afnuminn með öllu afsláttur vegna hlutafjárkaupa einstaklinga. Þessi afsláttur er mjög áberandi um áramót þegar keypt eru hlutabréf. Þetta var sett til að örva hlutafjárkaup, og var rétt á sínum tíma. En þetta er hins vegar orðið mjög umfangsmikið og ég tel rétt að þrepa þetta niður. Ég held að of harkalega sé farið í þetta og vildi fá álit hæstv. ráðherra á því hvort ekki kæmi til greina að þrepa þetta niður kannski á tveimur árum. Þetta tekur ekki gildi fyrr en 1997. Einstaklingar eru búnir að kaupa í ár til að nýta sér þetta og ekki er lagt til að fella það niður. Ég held að einnig eigi að vera einhver smávægilegur frádráttarmöguleiki í þessu kerfi. Ég held að hagkvæmt sé fyrir alla að einstaklingar fjárfesti eitthvað í hlutabréfum og það sé gott fyrir atvinnulífið og einstaklinga. Ég held að það sé ekki slæm aðferð þó við höldum henni ekki í því umfangi sem gert var hér á umliðnum árum en ég vil fá að vita hvað þetta þýðir í tölum fyrir fjmrh. því það kemur alveg skýrt fram hvað hann er að gera með þessu. Hann er að ná sér í tekjur fyrir nefndina sína --- huldunefndina --- sem stjórnarandstaðan fær ekki að koma að, nefndina, sem á að lækka jaðarskatta. Ég vil gjarnan fá að vita hvaða svigrúm hann er að kaupa sér með þessu. En hugmyndin er ekki slæm því þetta eru sams konar hugmyndir og við í þingflokki jafnaðarmanna höfum verið að velta fyrir okkur að væri ástæða til að breyta.

Í 4. gr. frv. er verið að auka yfirfæranlegt tap úr fimm árum í átta ár. Þetta er líka stórmál vegna þess að þetta er gert núna á þessu ári þegar það er að bíta. Þetta fer að skipta máli núna um áramótin. Um 80 milljarðar eru til í uppsöfnuðu tapi í kerfinu, kannski ekki allt nýtt. Það hefði átt að gera þetta fyrir ári eða tveimur árum ef menn hefðu viljað lengja þennan tíma sem eru í sjálfu sér alveg full rök fyrir. Það eru fimm ár hér á landi. Bretland er með ótakmarkaðan tíma, Þýskaland líka, fimm ár í Frakklandi, fimm ár í Danmörku, Noregur er með tíu ár og Svíþjóð ótakmarkaðan tíma. Þetta þýðir að menn geti flutt tap milli ára á misjafnan hátt. Mörg rök mæla með því að þessi tími eigi að vera lengri. Ég er fyrst og fremst að finna að því að hugmyndir um þessa breytingu skuli ekki hafa komið fram fyrr, fyrst þetta var stefna ríkisstjórnarinnar. Það sem ég óska eftir er að ráðherra upplýsi í þessari umræðu hvað það þýðir mikið tekjutap fyrir ríkið á næsta ári ef þessi framkvæmd nær fram að ganga. Ég vil líka benda á að meðhöndlun taps á milli fyrirtækja er mjög umdeilt mál. Menn voru að kaupa og selja tap fyrirtækja hér á árum áður. Og það var nú verið að rifja upp frægasta dæmið í blöðunum í dag þegar Vífilfell keypti tap Nú-Tímans af Framsfl. eða útgáfufélagi Framsfl. og þegar ríkið --- Framkvæmdasjóður --- seldi tap Álafoss, Vífilfelli reyndar líka. Þetta voru viðskipti sem vægt sagt orkuðu mjög tvímælis á þeim tíma. Nú er komið í ljós að þessi kaup voru ekki viðurkennd í skattkerfinu og er svo vel. Ég vil taka fram að reglur um þetta hafa verið þrengdar þannig að þeir keyptu köttinn í sekknum og ég græt það ekki. En ég vil gjarnan fá fram frá hæstv. fjmrh. hvort hann viti um þær sögusagnir, sem ganga í viðskiptalífinu, að menn hafi verið að fara fram hjá þessu tapi með því að selja eignir og mynda þannig hagnað til að nýta tap sem hefði fallið niður, kaupa síðan þessar eignir aftur og byrja síðan að afskrifa það. Sagt hefur verið að þekkist í sambandi við viðskipti með fiskveiðiheimildir. Ég vildi gjarnan fá að vita frá hæstv. ráðherra hvort eitthvað er til í þessu. Er einhver ástæða til að skoða þetta? Er þetta einhver hugmyndafræði í viðskiptum sem hann telur eðlilega? Þarna voru menn sem sagt að koma sér undan þessu sem átti raunverulega að ganga í gildi um áramót, --- fimm ára reglan ---- og sýnir eiginlega betur en margt annað hvað verið er að leggja upp með slæma aðferð, þ.e. að breyta skattalögum örfáum mánuðum áður en árið rennur út. Þetta er slæmt þó ég geti alveg tekið undir að breiðara bil eigi að vera í þessu máli. Það ætti jafnvel að taka upp þá reglu, sem þekkist mjög víða, að tekjuskattur gangi í báðar áttir, að menn geti fengið endurgreiddan tekjuskatt sem þeir eru búnir að greiða. Það þekkist t.d. í Bretlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum, kerfi sem þyrfti lengri tíma til að útskýra. En fjmrh. verður að koma með tölur um hvað þessar breytingar þýða.

Í þessu frv. er afskriftareglunum einnig breytt. Þær eru rýmkaðar nokkuð. Þetta er breyting sem ég styð. Ég tel eðlilegt að gefa smá svigrúm í sambandi við afskriftir. Hægt er að færa rök fyrir því að gera eitthvað svipað og gert er á alþjóðlegum vettvangi. Svigrúm er ágætt þó svo almennt gildi vitaskuld um afskriftir að þær eigi að vera í samræmi við endingartíma.

Ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um einn mikilvægan þátt í þessu sambandi. Ef fyrirtæki geta afskrifað með misjöfnum hætti, þ.e. varðandi samanburðarhæfni t.d. á verðbréfaþingi, því nú er farið að versla með hlutabréf það víða og ef menn nota mismunandi afskriftaprósentu, einn notar 5 og annar notar 15, þá sýnir það vitaskuld mismunandi afkomu sem þýðir að niðurstaða ársreikninga er allt önnur. Þetta hefur verið vandamál. Ég vildi gjarnan fá álit hæstv. ráðherra á því hvort þessi aðgerð, þó að öðru jöfnu sé allt í lagi með hana, geti ekki kallað einmitt á frekari vandamál varðandi þessa samanburðarhæfni á mörkuðum, sérstaklega þar sem erum farnir að versla með svo mikið af hlutabréfum á almennum markaði. Það mætti skoða það mál út frá þessum þætti.

Í þessu frv. er réttarstaða fólks í staðfestri sambúð gerð, í skattalegu tilliti, eins og hjá hjónum. Þetta lætur lítið yfir sér en ég fagna því að við staðfestum raunverulega þá löggjöf sem við gengum frá samhljóða á síðasta þingi, líka hvað varðar skattalögin. Þetta horfir til framfara. Sömuleiðis að mikilvæg breyting er gerð í frv. en það var umsamið að gerð yrði sú breyting að útsvarstekjur yrðu hækkaðar til sveitarfélaganna í sambandi við flutning til grunnskólans og fer vitaskuld vel á því að það sé gert með þessum hætti.

Þessi fyrirtækjafrumvörp, sem ég kalla svo, einkennast af velvild gagnvart fyrirtækjum, ekki gagnvart fólki. Það kemur fram í stefnuyfirlýsingu með þessum frumvörpum að fella eigi niður að greiða þennan vesæla 10% skatt af arði. Hann var lækkaður í vor úr 42% niður í 10%, sem var fjármagnstekjuskatturinn. Nú ætla þeir að fella það niður. Þeir eru að boða það að þessir menn eigi ekki að greiða skatt af arði. Að vísu fella þeir niður arðgreiðsluna sem frádráttarlið hjá fyrirtækjum. Ég veit ekki til þess að arðgreiðslur hjá fyrirtækjum séu annars staðar dregnar frá tekjum. Ég þekki það ekki nógu vel en ég held að almenna reglan sé sú að það sé ekki gert annars staðar. En það er alveg greinilegt hverjir eru vinir þessarar ríkisstjórnar.

Í þessum frumvörpum kemur ekkert fram um skattaívilnanir fyrir nýsköpun og þróun. Það er ekkert um það. Það eru engar ívilnanir til smærri fyrirtækja. Það eru hvergi gerðar sérstakar skattaráðstafanir vegna þróunar og rannsóknastarfsemi. Nú er ég bara að tala um fyrirtæki og auðvitað er hvergi getið um einhverjar ívilnanir eða leiðréttingar gagnvart einstaklingum. Hér er enn og aftur verið að ganga erinda stórfyrirtækjanna, fyrirtækjanna sem stjórna Vinnuveitendsambandinu. Það er verið að ganga erinda fákeppnisaðilanna sem við þekkjum vel í þessu þjóðfélagi. Ekki er einu sinni náð yfir smærri fyrirtækin og þau sem vaxtarbrodd bera í framtíðinni. Ekkert er gert í þessum skattafrumvörpum gagnvart þeim þó svo að nokkur atriði séu kannski í lagi þá er verið að púsla saman kerfi sem tekur einhliða afstöðu með útfærslu ríkisstjórnarstefnunnar. Ég er ekki sammála þessari stefnu. Ég tel að þessi frumvörp séu í heildina (Forseti hringir.) ekki góð og ekki frambærileg og hefði þurft að leggja þessi mál upp á annan hátt. Stjórnarandstaðan mun bæði við afgreiðslu þessara frumvarpa og við afgreiðslu fjárlaga útfæra betur og kynna þær tillögur í skattamálum sem við höfum unnið að.