Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 15:48:56 (1220)

1996-11-14 15:48:56# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[15:48]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Nú fer hæstv. fjmrh. með rangt mál í báðum þeim athugasemdum sem hann gerir. Í fyrsta lagi spurði ég starfsmann fjmrn. um hvort frv. kæmi um breytingar á tapsfrádrættinum. Bolli Bollason svaraði því að þau mál væru til skoðunar í ráðuneytinu. Það var ekki sagt að frv. kæmi í haust. Rétt skal vera rétt. Engin slík yfirlýsing var gefin. Í öðru lagi er rangt sem hann er að segja varðandi launamun. Ég bar saman hvað hefði gerst á tíu ára tímabili úr skýrslunni. Launamunur hér á landi hefur aukist úr þreföldum upp í 3,5-faldan. Það er það sem ég sagði. Ég sagði ekkert um þróunina milli 1994 og 1995, hún hefur staðið nokkurn veginn í stað. Ég hef margoft sagt bæði hér og get sagt það víða annars staðar að launamunur hér á landi er mjög lítill miðað við önnur lönd. Það hefur alltaf legið fyrir. En hæstv. fjmrh. fer einfaldlega með rangt mál þegar hann segir að ég hafi verið að beita blekkingum. Ég sagði aldrei að launamunurinn hér væri miklu meiri en í öðrum löndum. Ég benti á, og hæstv. fjmrh. veit það ef hann hefur hlustað, að launamunur hér á landi hefur aukist sl. tíu ár. Það kemur fram í skýrslunni. Ég tel það ekki vera æskilega þróun. Það getur vel verið að hæstv. fjmrh. telji það vera æskilega þróun. Það er pólitískt matsatriði. En það er lágmarkskurteisi og það hefur gengið þokkalega hjá mér og hæstv. fjmrh. að hafa skoðanaskipti, og ég frábið mér að ráðherrann fari með rangt mál og brigsli mér um hluti sem ég hef ekki sagt. Hann er ekki vanur því og ég hef ekki gert það heldur gagnvart honum. Ég vil að rétt sé rétt og ég gerði ekkert annað en að vitna rétt í skýrsluna sem hér var gerð að umtalsefni.