Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 16:10:52 (1223)

1996-11-14 16:10:52# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., JBH
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[16:10]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í dagskrárkynningum Ríkisútvarpsins, gömlu Gufunnar, var ævinlega komist svo að orði að fastir liðir væru eins og venjulega. Nú er komið að föstum liðum eins og venjulega hjá hæstv. fjmrh. Fastir liðir eins og venjulega að koma með skattapakka að hausti og af því að þessi núv. hæstv. fjmrh. er nú búinn að sitja á sínum stól og hafa bærilegan vinnufrið nokkuð lengi, eru þetta líka fastir liðir eins og venjulega samkvæmt hans pólitísku forskrift. Það verður ekki sagt að neitt af þessu sæti sérstökum tíðindum. Við ræðum frv. til laga um breytingar á tekjuskatti og eignarskatti þar sem aðalatriðin eru tvö. Annars vegar er það rýmkun heimildar til yfirfærslu rekstrartaps milli ára sérstaklega til þess að auðvelda fyrirtækjum að yfirfæra áfram tap hinna erfiðu tapára 1988--1990 samkvæmt formúlunni í greinargerð: ,,Fulltrúar atvinnurekenda hafa ítrekað bent á ...`` Síðara atriðið er afnám hlutabréfafrádráttar sem styðst við þau rök að þegar hæstv. ríkisstjórn efndi til veislu fyrir fjármagnseigendur á sl. vori með afgreiðslu sinni og útfærslu á svokölluðum fjármagnstekjuskatti, var svo í lagt í þeirri veislu að ekki mundi líta fallega út ef því til viðbótar væri haldið þessum sérstaka frádrætti. Skynsamlegra hefði þó verið að halda honum þótt hann yrði kannski eitthvað takmarkaður en spara sér hins vegar þessa stórkostlegu veislu til hinna efnamestu í þjóðfélaginu sem fólst í skattalækkun úr 42%--47% niður í 10% að því er varðar fjármagnstekjur, arð og söluhagnað o.fl. sem kemur auðvitað fyrst og fremst til góða þeim 10% ríkustu einstaklingum í þessu þjóðfélagi sem eiga helminginn af þeim arði sem til fellur í formi fjármagnstekna.

Hér er svo sem verið að fitja upp á nokkrum öðrum breytingum sem hins vegar skipta minna máli. En það er ástæða til að vekja athygli á breytingum á útreikningum á verðbreytingarstuðlum, þ.e. að hverfa frá byggingarvísitölu yfir til verðvísitölu og eins að vekja athygli á breytingunum sem gerðar eru á útlagningunni á skattlagningu fjármagnstekna í staðgreiðslu. Hvort tveggja flokkast væntanlega undir mistök stjórnarliða við afgreiðsluna á síðasta þingi.

Í raun og veru ætti að ræða þennan pakka í einu. Það væri vinnusparnaður en stendur víst ekki til. Þó er ástæða til að nefna það að af þessum skattapakka er mál númer tvö um tryggingagjaldið sennilga það skynsamlegasta. En hvernig er það tilkomið? Það er ekki samkvæmt pöntun frá atvinnurekendum eins og mál númer eitt. Það er samkvæmt fyrirmælum frá Eftirlitsstofnun EFTA. Vegna þess að Eftirlitsstofnunin hefur einfaldlega gert alvarlegar athugasemdir við þá áráttu íslenskra stjórnvalda að mismuna atvinnugreinum á grundvelli tilbúinna og annarlegra sjónarmiða. Þessi samræming í gjaldtöku, í þessu tilfelli tryggingagjaldanna, er sjálfsögð og við jafnaðarmenn mælum að sjálfsögðu með því og teljum þetta rétta stefnu. Efasemdirnar eru kannski frekar um það af hverju verið er að mjatla þetta á fjórum árum vegna þess að hér er um að ræða brot á grundvallarreglu um jafnræði milli atvinnurekenda og fyrirtækja í ólíkum atvinnugreinum. Það eru gerðar við það réttmætar athugasemdir af Eftirlitsstofnun EFTA að þetta sé brot á samkeppnisreglum. Og þá á við hið fornkveðna að vont er þeirra ranglæti en verra þeirra réttlæti. Hvers vegna á þá að taka fjögur ár að leiðrétta þetta? Vörugjaldið á sér sama uppruna. Raunverulega var ríkisstjórnin neydd til að gera breytingar á síðasta þingi á vörugjöldunum einfaldlega vegna alvarlegra athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA um að það stæðist ekki vegna þess að það mismunaði atvinnurekendum eða mismunaði reyndar neytendum í þessu tilviki og reyndar milliliðum líka bæði vegna mismununar á greiðslufresti og mismunun á gjaldstofnum vörugjalds eftir því hvort um var að ræða innfluttar vörur eða vörur framleiddar innan lands. Hér er stigið hænufet í viðbót í þessu vandræðamáli til að lækka þetta tekjutap ríkissjóðs upp á 300 millj. en í raun og veru hefur verið á það bent að vörugjaldið er vandræðaskattlagning sem færi best á að leggja af og fella inn í virðisaukaskattinn.

[16:15]

Næsta mál er síðan þetta sem ég hef þegar vikið að um staðgreiðslu skatts af fjármagnstekjum, leiðrétting á mistökum og breytingin á virðisaukaskattinum og þá sérstaklega því sem er kannski aðalatriðið. Það er staðfest í athugasemdum við 9. gr. á þskj. 159 en þar segir, með leyfi forseta:

,,Við breytingu sem gerð var á lögum um virðisaukaskatt sl. vor gætti þeirrar ónákvæmni`` --- þeir eru kurteisir við sjálfa sig þarna í fjmrn. --- ,,að lækkun endurgreiðslunnar náði einungis til vinnu við byggingu íbúðarhúsnæðis en ekki til vinnu við viðhald eða endurbætur.``

Smávægileg ónákvæmni sem hér með er leiðrétt. Svona til að undirstrika það er viðbót í þessum skattapakka alveg sérstakt mál sem er samkvæmt formúlunni. Ef það er ekki komið að utan þá er það komið samkvæmt pöntun frá kerfinu. Það varðar Lífeyrissjóð bænda þar sem verið er að leggja á skattgreiðendur 140 millj. kr. á ári til ótiltekins tíma og viðurkennt að það muni kosta skattgreiðendur 1 milljarð í viðbót. Aftur mismunun og sérstök meðhöndlun samkvæmt pöntun frá atvinnurekendum. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, virðulegi forseti.

Nú er það svo að sá sem hér stendur er ekki þeirrar skoðunar að atvinnurekendur séu vondir og það eigi aldrei að hlusta á atvinnurekendur og ekkert tillit að taka til fyrirtækja, fjarri því. Ég minni á að í tíð fyrri ríkisstjórnar þegar við hæstv. fjmrh. vorum ágætir samstarfsmenn var kerfisbundið unnið að því að lagfæra starfsumhverfi fyrirtækjanna í landinu. Nauður rak til; atvinnuleysi fór vaxandi, ytri áföll höfðu dunið yfir og íslenskt atvinnulíf stóð höllum fæti. Fyrirtækin voru skuldug og skuldasöfnun fór vaxandi, ekki síst t.d. í sjávarútvegi. Með það að markmiði að vinna bug á atvinnuleysinu, draga úr atvinnuleysi og bæta samkeppnisstöðu atvinnuvega og fyrirtækja var kerfisbundið unnið að því að bæta stöðu fyrirtækjanna. Það var náttúrlega fyrst og fremst gert með því að vinna að því, og það tókst vel í framkvæmd, að skrá gengið rétt, að raungengið var gert hagkvæmt sérstaklega fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinar. En í annan stað var það gert með leiðréttingum á skattaumhverfinu. Þar voru verulegar breytingar ekki síst þegar það tókst loksins að afnema aðstöðugjaldið sem flestum bar saman um að var ranglátur og óhagkvæmur skattur. En þó var mjög hörð andstaða sveitarstjórnarhagsmunamanna vegna þess að þetta var tiltölulega öruggur, einfaldur og auðveldur skattstofn fyrir sveitarstjórnirnar en ekki í samræmi við skynsamleg sjónarmið gagnvart atvinnurekstri. Það var svo sem fleira gert. Tekjuskattur fyrirtækjanna var lækkaður mjög verulega og breytingar gerðar á virðisaukaskatti, reynt að örva almenning til þátttöku í hlutafjárkaupum í atvinnulífi, þ.e. til þátttöku í áhættufjárfestingum frekar en einungis í öryggisfjárfestingum á vegum ríkissjóðs o.s.frv. Aðalatriðið er að þessar aðgerðir voru kerfisbundnar, þær höfðu skýr markmið, það var til þess að draga úr atvinnuleysi, það var til þess að bæta samkeppnisstöðu, það var til að treysta undirstöðuna, afkomu fyrirtækja, og það var gert vegna þess að ytri skilyrði kölluðu á þetta. Þetta bar árangur.

Nú er það hins vegar svo að sá árangur liggur fyrir. Afkoma fyrirtækja fer stórlega batnandi. Hagnaður fyrirtækja fer vaxandi. Fyrirtæki eru að greiða niður skuldir og það þýðir um leið að hagur eigenda fyrirtækjanna fer einnig batnandi. Þessi umskipti verða nánast á árinu 1994--1995 og við erum núna að minnsta kosti á öðru ári í góðæri. Með öðrum orðum hafa ytri skilyrði snúist við til hins betra fyrir fjármagnseigendur, fyrir fyrirtækin o.s.frv. Það sem eftir situr er hlutur launþega. Við stöndum frammi fyrir kjarasamningum. Á sl. vetri fóru fram miklar umræður undir formerkjum lífskjarasamanburðar launþega annars vegar hér á landi og hins vegar í grannlöndunum sem við viljum helst bera okkur saman við. Sá lífskjarasamanburður leiddi margt eftirtektarvert í ljós. Í fyrsta lagi það að laun vinnandi fólks á Íslandi fyrir dagvinnu eru mjög lág. Svo lág að við stöndumst engan samanburð við grannþjóðir og erum í launatöflum í OECD-samanburðinum á botninum. Þessi samanburður lagast þegar tekið er tillit til vinnutímans. Með því að íslenskir launþegar leggja á sig allt að þriggja mánaða lengri vinnutíma á ári hverju heldur en t.d. annars staðar á Norðurlöndum þá hala menn inn tekjur en ná þó hvergi nærri að jafna þetta. Þannig að lífskjarasamanburðurinn er okkur mjög í óhag og launþegar, sem áttu mjög mikinn þátt í því að það tókst að normalísera þetta þjóðfélag á sínum tíma 1990 með þjóðarsáttarsamningum, það verður ekki undan því kvartað, hafa nú lýst vonbrigðum sínum með það að þrátt fyrir þær fórnir sem þeir tóku á sig á samdráttarárunum þá virðist lítill skilningur á því af hálfu stjórnvalda nú að tími sé kominn til að fara að huga eitthvað að hlut ríkisvaldsins og þó fyrst og fremst í skattamálum til að rétta þeirra hlut.

Umræðan um það hvort launamunur á Íslandi og í öðrum löndum í alþjóðlegum samanburði er svona eða hinsegin skiptir ekki meginmáli í því sambandi. Það er auðvitað allt rétt og menn vita að launamunur ráðstöfunartekna eftir skatta er hér minni heldur en víðast hvar annars staðar á byggðu bóli, um það er ekki deilt. Hitt er annað mál að það er margt sem bendir til þess að það dragi mjög úr því, þ.e. að munurinn fari vaxandi, þ.e. að ójöfnuður bæði að því er varðar eignaskiptingu og tekjuskiptingu fari þrátt fyrir allt vaxandi. En í ljósi þessa er athyglisvert að líta á skattapakka hæstv. fjmrh. Vegna þess að hann er fastir liðir eins og venjulega. Hann er samkvæmt pöntun frá Vinnuveitendasambandinu, eins og hv. þm. Ágúst Einarsson sýndi hér fram á. Lagfæringar og leiðréttingar á hag fyrirtækja og fjármagnseigenda ofan í kaupið eftir veisluna miklu í sambandi við fjármagnstekjuskattinn á síðasta þingi. Þar stóðum við í miklum deilum um útfærslu. Hæstv. fjmrh. sagði auðvitað: Það er mál sem mér kemur ekkert við vegna þess að þetta fjármagnstekjuskattsfrv. var samið af nefnd og hann hefur gjarnan látið eins og honum hafi bara verið afhent þetta af einhverjum aðilum út í bæ og síðan hafi þetta verið lagt hér fyrir og hann hafi eiginlega engin áhrif á það haft. Deilan stóð hins vegar um útfærslu, hvort menn vildu fara þá leið, sem raunverulega hafði alltaf verið talað um, að fjármagnstekjuskatturinn ætti að vera ákveðin skilaboð út í þjóðfélagið um vilja stjórnvalda til aukinnar tekjujöfnunar í þjóðfélaginu. Flatur 10% skattur á alla, þar með á neikvæðan sparnað smásparifjáreigenda í bankakerfinu er auðvitað ekki tekjujöfnunarleið. Þeirri leið sem ríkisstjórnin fór, að hafna því að hafa þetta innan tekjuskattskerfisins og gera þar ráð fyrir að nýta tekjujöfnunartækið sem tekjuskattskerfið er með frítekjumörkum og lægri prósentu, var hafnað. Síðan var samkvæmt pöntun frá Vinnuveitendasambandinu höfuðið bitið af skömminni með því að bjóða ríkasta fólkinu á Íslandi, þessum tiltölulega fámenna hópi fjármagnseigenda sem fær í sinn hlut meira en helminginn af öllum fjármagnstekjum, upp á sérstaka veislu með því að lækka skattlagningu á fjármagnstekjur, arð og söluhagnað svona myndarlega, maximalt frá 47% niður í 10%, undir þeim falsrökum að þetta væri til að örva fjárfestingu í atvinnulífinu. Þetta er raunverulega þvert á móti, þetta er til þess að örva arðgreiðslur út úr fyrirtækjum til atvinnurekenda, til fjármagnseigenda, án þess að því fylgi nokkur trygging að það verði endurfjárfest út af fyrir sig í arðbærum fjárfestingum.

Þetta er í raun og veru gagnrýnin á núv. ríkisstjórn og þetta er kjarni málsins í almennum umræðum um þessi mál. Nefnilega að það eru fastir liðir eins og venjulega, það er haldið áfram, þótt í smáu sé að mestu leyti, að verða við óskum atvinnurekenda um leiðréttingu hér og leiðréttingu þar. Eða þá að ríkisstjórnin er að bregðast við nánast ákærum að utan um að hún hafi gert sig seka um mismunun milli atvinnugreina og hún verði að leiðrétta það þó það taki hana langan tíma. En það er ekkert verið að taka tillit til sjónarmiða launþega. Hæstv. ráðherra kemur hér aftur núna alveg eins og hann gerði í fyrra og fer með nákvæmlega sömu ræðuna. Hagsmunir launþega eru nefndir. Það er nefnd að störfum og hún á ekki að skila af sér fyrr en eftir áramót og þær tillögur verða þá ekki lagðar fyrir fyrr en í fyrsta lagi á vorþingi. Þannig að ef sú nefnd skilar einhverju bitastæðu sem verður lagt fyrir þing og þingið nær að afgreiða þá mun það ekki skila neinum niðurstöðum fyrr en á þarnæsta ári. Samt sem áður er það svo að hæstv. fjmrh. og talsmenn Sjálfstfl., alveg eins og talsmenn okkar jafnaðarmanna og reyndar talsmenn allra flokka, sögðu fyrir kosningar: Það er eitt mál öðrum fremur sem er forgangsmál við breytingar á skattkerfinu. Hvað er það? Það er að draga úr svokölluðum neikvæðum jaðaráhrifum í tekjuskattskerfinu sem koma annars vegar fram gagnvart launþegum með lágar og miðlungstekjur og reyndar líka lífeyrisþegum og lýsir sér í því að viðleitni skuldugra barnafjölskyldna, yfirleitt með þungar húsnæðisskuldir, til þess að vinna sig út úr skuldum, nýta það að góðærið er komið, það hefur dregið úr atvinnuleysinu, nýta sér það að reyna afla meiri tekna með meiri vinnu, tekst ekki vegna þess að ríkið tekur í sinn hlut sívaxandi hluta af öllum viðbótartekjum. Vegna þess að ef hinn skuldugi launþegi aflar meiri tekna þá verður hann fyrir samsvarandi skerðingu í formi barnabóta, barnabótaaukans, vaxtabóta, húsnæðisbótanna og svo framvegis. Þetta var auðvitað forgangsmálið, þessu var lofað. Og það er ekki nógu gott að segja nú enn og aftur: Þetta er að vísu allt saman satt og rétt, þetta er mikill galli á kerfinu, þetta þarf að leiðrétta en svo er eins og það sé einhver reginmunur á því annars vegar sem hér segir í greinargerðum: Atvinnurekendur hafa bent á, atvinnurekendur hafa sett fram kröfur um. En þegar um er að ræða kröfur sem launþegar setja fram, sem verkalýðshreyfingin setur fram, eða jafnvel loforð sem stjórnmálamenn hafa lýst yfir að séu forgangsmál þá liggja þau eftir. Þau ná ekki inn í dagskrá Ríkisútvarpsins. Fastir liðir eru nefnilega eins og venjulega að hafa þessi mál bara áfram í nefnd.

Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að vera með margar spurningar sem beint er til hæstv. fjmrh. við 1. umr. Þessi mál, fimm eða sex talsins eða hvað þau eru, munu auðvitað koma til efh.- og viðskn. og þar munu þau fá rækilega umfjöllun ekki hvað síst þær tillögur sem helst eru bitastæðar, þ.e. fjögurra ára áætlunin um að samræma tryggingagjöldin og leiðréttingin á þessum mistökum sem hér er um að ræða miðað við afgreiðsluna frá fyrri tíð. Eftir stendur að hlutur ríkisvaldsins, hlutur hæstv. fjmrh., er ekki nógu góður þegar við erum að ræða það sem ég tel vera mikilvægara heldur en nokkuð af þessum leiðrétingum fyrir utan kannski samræminguna á tryggingagjöldunum, nefnilega að taka á jaðarskattavandamálinu. Og það verður að segjast eins og er að það veldur vonbrigðum að þessari nefnd skuli ekki hafa verið gert að skyldu að hraða sínum störfum. Það veldur vonbrigðum að við fáum sömu ræðuna og sömu svörin frá hæstv. fjmrh. annað árið í röð og fyrirsjáanlegt að það verða engar niðurstöður fyrr en þá í besta falli eftir eitt ár. Það er ekki nógu gott. Þetta er gagnrýni vert og þetta er ekki til þess að auðvelda t.d. samskipti ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins í því mikla kjaramálauppgjöri sem fram undan er.