Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 16:33:27 (1225)

1996-11-14 16:33:27# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[16:33]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lagði nú út af því að það væru fastir liðir eins og venjulega í þessari umræðu og hæstv. fjmrh. segir, ja, þetta eru sömu umræðurnar eins og við höfðum í fyrra. Hvernig stendur á því, hvað er hann að tala um? Við erum að tala um það sem frá hæstv. fjmrh. kemur og það eru engin stórtíðindi sem frá honum koma. Og hann er ekki að taka á forgangsmálunum og aðalatriðunum, hann er að mjatla í aukaatriðum. Að öðru leyti segir hann: Málin eru í nefnd.

Hann minnir á það að fjármagnstekjuskatturinn var settur í nefnd, já, já. Og nú segir hann það að draga úr ranglætinu sem felst í jaðaráhrifum tekjuskattskerfisins er í nefnd. Og hæstv. fjmrh. segist ekki vita annað en starf nefndarinnar sé á sæmilegu róli, að sæmilega fari á með mönnum. Nú veit ég ekkert um það, en það er kannski ástæða til þess vegna þess að þetta nefndarstarf hefur dregist allt of lengi að beina því til hæstv. fjmrh., úr því hann hefur svona mikla tröllatrú á nefndum sem eiga að færa honum pakkana á silfurfati og með slaufu --- hvernig væri nú að opna þessa nefnd úr því henni vinnst svona hægt og láta ekki bara aðila vinnumarkaðarins sjá um þetta heldur setja í þessa nefnd fulltrúa frá þingflokkum stjórnarandstöðunnar sem eru alltaf þýfga hæstv. fjmrh. um þetta því að það eru þau vinnubrögð sem hann helst óskar eftir, að fá þetta bara allt á borðið með slaufu.