Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 16:36:29 (1227)

1996-11-14 16:36:29# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[16:36]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þau frv. fjmrh. sem hér liggja fyrir og eru til umræðu í dag varðandi skattamálin og vörugjald vekja sterk viðbrögð þingmanna. Ekki vegna þess sem í þeim stendur heldur vegna þess sem þau bera með sér. Ekki vegna þess sem ríkisstjórnin er að gera núna heldur vegna þess sem ríkisstjórnin gerir ekki og vegna þeirra mála sem ríkisstjórnin í raun þegir um þó fjmrh. reyni að klóra í bakkann og svara spurningum með því að vísa til nefndar um að draga úr jaðaráhrifum tekjuskatts og bótagreiðslna. Það á ekki að lagfæra skattbyrði og svokölluð jaðaráhrif sem fjölskyldurnar í landinu bera næsta árið. Þegar loks á að lagfæra skattbyrði fjölskyldnanna og skoða það sem hefur þyngt svo mjög skattbyrðina, nefnilega jaðaráhrifin, verður langt liðið á kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar. Ef eitthvað verður gert með nefndarstarfið, sem ljúka á um þessi áramót og þýðir að væntanlega kemur það til fjmrh. einhvern tímann á útmánuðum, og frv. lagt fram, þá tekur skattbreyting í fyrsta lagi gildi um næstu áramót. Og þá, virðulegi forseti, eru 16 mánuðir, segi og endurtek 16 mánuðir eftir af kjörtímabili ríkisstjórnarinnar. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur allt sem segja þarf um forgangsmál ríkisstjórnarinnar og áherslu í skattamálum eins og rækilega hefur verið tíundað af félögum mínum í umræðunni hér í dag. Ég hlýt að spyrja fjmrh.: Hvenær var nefndin sett á laggir? Hvenær hófst það nefndarstarf sem boðað er að ljúki nú ef til vill um áramót og hefur tekið þann tíma væntanlega að ekki er unnt að gera breytingar á tekjuskatti einstaklinga fyrr en svo seint verður liðið á kjörtímabilið? Ég vek athygli þingmanna á því að það eru 19 mánuðir liðnir frá kosningum. Þessi ríkisstjórn er aldeilis ekki ný, það eru 19 mánuðir liðnir frá kosningum. Í kosningabaráttu fyrir þær kosningar lýstu allir flokkar því yfir að þeir vildu gera breytingar á jaðaráhrifum skattanna. 19 mánuðir liðnir og nú er vísað í nefnd.

Virðulegi forseti. Ég ætla að vísa til upplýsinga sem fram hafa komið og samantektar sem gerð var í Viðskiptablaðinu þar sem vakin er athygli á því að tekjuskattur hefur tvöfaldast og er reyndar vakin athygli á því hversu vaxtakostnaður ríkisins hefur haft mikil áhrif til þyngingar á sköttum heimilanna í landinu. Svo ég vísi til þeirrar samantektar kemur fram að árið 1986 greiddi hver fjögurra manna fjölskylda 133 þús. kr. í tekjuskatt að meðaltali á verðlagi í október. Árið 1988 var staðgreiðsluhlutfallið 35,20% og þar af var hlutur tekjuskatts 28,50%. Á þessu ári er staðgreiðslan 41,93% og tekjuskatturinn er 33,15%. Á þessu ári greiðir hver fjögurra manna fjölskylda 303 þús. kr. í tekjuskatt eða 170 þús. kr. meira en 1986 á föstu verðlagi. Miðað við fjárlagafrumvarpið og að meðtöldum tekjum sem fara til sveitarfélaganna verður skattbyrði sömu fjölskyldu á komandi ári 318 þús. kr. Árið 1986 voru tekjuskattar einstaklinga tæplega 9% af heildarskatttekjum og fóru niður, takið eftir, fóru niður í 7,2% árið eftir. Á liðnu ári var tekjuskatturinn hins vegar kominn upp í 15,8% af skatttekjum og á þessu ári má ætla að hlutfallið verði 17,5% gangi áætlanir fjmrn. eftir. Síðan er vísað til þess hversu sértekjur ríkissjóðs hafa einnig hækkað. Ég tek það fram, virðulegi forseti, að ég hef á engan hátt reynt að sannreyna þær tölur sem hér eru settar fram enda reikna ég með að þetta virðulega blað hafi sett fram tölur sem óhætt er að vísa í.

Virðulegi forseti. Við í þessum sal erum aftur og aftur að ræða um jaðarskattinn. Það er fjöldi manna úti í þjóðfélaginu sem veit ekki hvað þetta orð, jaðarskattur, þýðir, sem skilur ekki hvað við erum að tala um. Vegna þess að oft erum við stjórnmálamenn að tala yfir höfuðið á venjulegu fólki, því venjulega fólki sem er með langa vinnudaginn, börnin og baslið, lélegan fjárhag og jafnvel skatta. Þess vegna, virðulegi forseti, ætla ég að leyfa mér það að flytja ræðu sem er á nokkurn hátt öðruvísi að þessu sinni. Ég ætla að segja fjmrh. söguna af Jóni og Gunnu og jaðarskattinum og jafnframt ætla ég að reyna að skýra með þessari sögu minni fyrir fólkinu úti í þjóðfélaginu, þeim sem hugsanlega hafa tækifæri til að fylgjast með umræðu úr þessum sal, hvað jaðarskattur þýðir. En fyrst og fremst er sagan hugleiðing til fjmrh. þannig að hann geri sér grein fyrir hversu mjög hann hefði átt að setja breytingar á þessum sköttum á oddinn.

Jón og Gunna voru nýgift með fyrsta barn sitt á leiðinni. Þau bjuggu í eigin blokkaríbúð og skulduðu 3 milljónir í húsbréfum. Þau þénuðu hvort um sig 60 þúsund, samtals 120 þúsund og afkoma þeirra var þokkaleg. Þau voru sparsöm og gátu leyft sér að eiga gamlan japanskan smábíl. Þeirra fjárhagsáætlun leit svona út: Föst laun 120.000, vaxtabætur 3.488 kr. Tekjur samtals 123.488, gjöld hin sömu. Fyrir utan rekstur bíls, afborganir og vexti, lánasjóð og stéttarfélög og staðgreiðslu, þá voru þau með útgjöld upp á 77.970 kr. Svo fæddist barnið og útgjöld fjölskyldunnar jukust um 25.000 kr. á mánuði. Gunna aflaði sér upplýsinga um barnabætur. Hvað mundi koma í þeirra hlut við þessa breytingu? Og fékk þær upplýsingar að með þeirra tekjur mundu þau fá 8.875 kr. á mánuði samanlagt í barnabætur og barnabótaauka. Þá sagði Jón: Okkur vantar bara 16.125 kr. til viðbótar til að endar nái saman. Í næsta mánuði vann Jón 10 tíma í eftirvinnu til að mæta auknum útgjöldum því hann var svo heppinn að vera á vinnustað þar sem hann hafði tækifæri til að bæta við sig. Gunna fór að skúra tvisvar í viku. Tekjurnar hækkuðu við þetta um þá upphæð sem Jón hafði nefnt. En þegar þau eftir smátíma gerðu upp heimilisbókhaldið var niðurstaðan þessi: Föst laun 120.000, eftirvinna og skúringar 16.126, barnabætur 3.200, barnabótaauki 4.546, vaxtabætur 2.520 kr. Til viðbótar við þau hefðbundnu útgjöld sem áður var greint frá kom framfærsla barnsins upp á 25.000 en nú var staðgreiðslan 9.125 kr. Þegar þau settu upp heildardæmið þá voru tekjur Jóns og Gunnu 146.392 kr. eins og að var stefnt en gjöldin voru 156.041 kr. Hallarekstur 9.649 kr.

[16:45]

Eitthvað varð að gera í þessu. Jón fór til frænda síns sem var skatthagur maður, sýndi honum heimilisbókhaldið og sagðist ekkert botna í þessu. Frændinn sagði: Þið hafið ekki tekið tillit til jaðarskattsins. Ég hef ekki verið rukkaður um neinn jaðarskatt, svaraði Jón. Það er ekki von, sagði frændinn, en þú hefur nú samt borgað hann. Í ykkar tilviki reiknast jaðarskatturinn svona: 41,84% staðgreiðsla + skerðing barnabótaaukans um 7% + skerðing vaxtabótanna um 6%. Þetta gerir samtals 54,84%. Svo má bæta launafrádrættinum til lífeyrissjóðs og stéttarfélags við en það eru 5%. Þá sagði Jón: Hvað þurfa tekjurnar þá, virðulegi fjmrh., að hækka mikið til að við getum séð fyrir barninu? Frændinn skoðar það og skrifar á miða: Um 40.152 kr. En útgjöldin vegna barnsins eru bara 25 þúsund og við fáum barnabæturnar og barnabótaaukann á móti. Það getur ekki verið rétt, að við þurfum enn að auka tekjurnar um 24 þúsund. Næsta mánuð vann Jón 35 tíma í yfirvinnu og Gunna fékk vinnu við að skenkja bjór á kaffihúsi á laugardagskvöldum auk skúringanna. Þeim tókst að auka tekjurnar að tilsettu marki og þegar þau gerðu mánuðinn upp kom í ljós að endar náðu akkúrat saman og þá leit bókhaldið svona út: Föst laun 120 þúsund, aukavinnan samtals 40.152, barnabæturnar 3.200, barnabótaaukinn 2.864, vaxtabætur 1.078. Staðgreiðslan er komin í 19.178. stéttarfélagsgjöldin, afborgarnir og vextir, rekstur bíls, önnur útgjöld og framfærsla barnsins er samtals 167.295 kr. Tekjur og gjöld stóðust á 167.295 kr.

Mánuðir liðu, barnið óx og dafnaði. Jón og Gunna létu enda mætast og unnu og unnu og kvörtuðu ekki þó þau hefðu gjarnan viljað hafa meiri tíma til að sinna barninu sínu. Fjármálaráðherrann var líka mjög ánægður með þau hjónin því nú skiluðu þau 12 þús. kr. nettó í kassann á mánuði í stað þess að kosta hann 1.100 kr. eins og áður. Barnið hafði bætt stöðu ríkissjóðs um 10.900 kr. en ríkið hafði fengið sitt. Rúmu ári síðar ól Gunna annað barn. En þá hafði atvinna dregist mjög mikið saman. Upp úr því fór efnahagur þeirra Jóns og Gunnu hraðversnandi og fór svo að lokum að íbúðin var seld á nauðungaruppboði þegar yngra barnið var nýorðið tveggja ára gamalt. Hafa menn fyrir satt að fjárhagserfiðleikar þeirra hafi fyrst og fremst stafað af óeðlilegri skuldasöfnun heimilisins. En það er önnur saga og þó, og þó.

Þetta er sagan um jaðarskattana. Þetta er sagan sem fólk þekkir. Ótrúlega stór hópur úti í þjóðfélaginu þekkir þessa stöðu, þekkir hana á sjálfum sér, á buddunni sinni, á heimilinu sínu, á naumt skorna frítímanum sínum og því að reyna og reyna og reyna að láta enda ná saman og skila skattinum sínum, láta keisarann hafa það sem keisarans er. En fólkið sem er að vinna og fólkið sem rétt hlustar á fyrirsagnirnar í fréttunum, hleypur yfir blöðin og reynir að standa sig, veit ekki alltaf hvað við erum að tala um með jaðarskattinum. Þess vegna, virðulegi forseti, hef ég valið að segja þessa sögu og líka til að reyna að hafa áhrif á fjmrh. sem í 19 mánuði hefur látið sér nægja að undirbúa og e.t.v. bara að hugsa um að taka á jaðarskatti fjölskyldnanna í landinu. Ég geri ráð fyrir að nefndin fræga sem vísað er til sé ekki búin að vera að starfa í 19 mánuði vegna þess ef svo væri hefði fjmrh. fyrir löngu átt að kalla eftir niðurstöðu hennar og kappkosta að leggja fram frv. um skattalagabreytingar í þessa veru inn á þetta þing þannig að þær gengju í gildi um áramót.

Virðulegi forseti. Það er afar mikilvægt að tengja persónuafslátt við fjölskyldustærð í stað núverandi kerfis barnabóta og tekjutengds barnabótaauka. Það er mjög mikilvægt að taka á þessum málum og horfast í augu við í hvert óefni er komið. Það eru tillögur sem við jafnaðarmenn munum bera fram inn á þingið og þó að við séum ekki búin að vera með nefnd í því máli jafnlengi og fjmrh. trúi ég því að tillögur okkar muni koma inn á þingið fyrr en hans. En ef hann á nokkurn kost á því að kalla eftir hröðum vinnubrögðum nefndar sinnar sem nú býr ekki við þau kjör að erfiðir einstaklingar, fulltrúar stjórnarandstöðu, séu að þvælast fyrir um vilja fjmrh. um niðurstöðu nefndarstarfs, þá ætti hann að geta kappkostað að koma með svo veigamikla skattbreytingu sem hér er kallað eftir og sem hann hefði átt að vera með efst á blaði á dagskrá þessa fundar.