Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 16:51:22 (1228)

1996-11-14 16:51:22# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[16:51]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var afar athyglisverð ræða. Sérstaklega vegna þess að hún var flutt af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Þessi ræða hv. þm. gefur nefnilega tilefni til að rifja ýmsa hluti upp. Til að mynda fyrrverandi samstarf okkar í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili þegar fulltrúi Alþfl. lagði til að tekið yrði upp húsaleigubótakerfi sem hefði samkvæmt hennar tillögu sett jaðarskattinn yfir 100% vegna þess að það hafa verið ær og kýr Alþfl. og ýmissa forustumanna hans í gegnum árin að tekjutengja allar bætur, allt í nafni félagslegs réttlætis. Nú hefur hv. þm. komið upp í dag og opinberað fyrir almenningi sérstaklega algjöra kúvendingu Alþfl. í þessum málum. Ég ætla að fagna henni því með henni er lýst yfir að Alþfl. ætli sér að styðja þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur lýst yfir að hún ætli að framfylgja og það er að draga úr jaðaráhrifum skattkerfisins. Og ég vænti þess svo sannarlega að þegar að því kemur að flytja slík frv. þá komi fulltrúar Alþfl. hér upp og rifji upp hvernig sagan hefur verið, m.a. í húsnæðiskerfinu sem hv. þm. þekkir mjög vel sem fyrrv. félmrh. þar sem tekjutengingar eru líka og þar sem vextirnir ráðast af tekjum manna. Hver skyldi hafa komið þessu kerfi á annar en einn af fyrrum forustumönnum Alþfl.? Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, sú ræða sem hér var flutt var stórmerkileg yfirlýsing um kúvendingu Alþfl. og ég fagna henni þess vegna.