Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 16:53:27 (1229)

1996-11-14 16:53:27# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[16:53]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alltaf gert mér grein fyrir því að Alþfl. er feykilega mikilvægur flokkur og að hann hefur mikil áhrif þegar hann er í ríkisstjórn. En ég gerði mér ekki grein fyrir því að Alþfl. hefði haft svo mikil áhrif þegar hann var í ríkisstjórn með Sjálfstfl. að fjmrh. hefði ekki getað komið fram stefnu sinni og að Alþfl. hefði eyðilagt hugmyndafræði og stefnu Sjálfstfl. og í raun og veru beri ábyrgð á stefnu fjmrh. síðustu fimm ár. Ég man vel eftir nærri því öllum stóru málunum sem komu fram og ég kom að á síðasta kjörtímabili. Þau glöddu mig ekki öll jafnmikið. Ég vann í þeim, í sumum tilfellum gat ég haft áhrif til breytinga og í sumum ekki. Ég hef alltaf sagt úr þessum ræðustól: Ég stend við það sem ég gerði þá. Það þýðir ekki að mér geti ekki snúist hugur í málum og mínum flokki. Ráðherrann hlýtur að hafa verið í algjörum fílabeinsturni fyrir síðustu kosningar ef hann hefur ekki gert sér grein fyrir því að það kom fram í málflutningi allra þingmanna Alþfl. að þegar búið væri að taka saman jaðaráhrifin og áhrifin af ýmsum þeim breytingum sem við stóðum að, væri það óviðunandi niðurstaða. Við boðuðum það tímanlega fyrir kosningar og á fundum með fulltrúum fjmrh., þ.e. fulltrúum flokks fjmrh. hvaða breytingar við vildum gera. Ég held að ráðherrann ætti nú ekki að nefna húsaleigubæturnar vegna þess að útfærsla þeirra í samvinnu við flokk hans var þannig að í sumum bæjarfélögum fær fólk ekkert meðan fólk fær annars staðar skikkanlegan stuðning, samanber vaxtabæturnar. Og enn annað. Við erum alltaf í fjárlagavinnunni að gera breytingar þar sem ekki sést nægilega fyrir hvaða áhrif hafa hjá ýmsum hópum fólks. Þess vegna reyndust breytingarnar á vaxtabótakerfinu allt öðruvísi en útreikningar fjmrn. sýndu þegar við vorum að vinna þær.