Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 16:56:07 (1230)

1996-11-14 16:56:07# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[16:56]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara yfir þetta mál grein fyrir grein enda aðrir búnir að því og mjög margt komið fram um þessar breytingar sem lagðar eru til og ég ætla ekki að tala um jaðarskattana eins og flestir aðrir á undan mér. Þeim verður líklega ekki betur lýst en í máli hv. síðasta ræðumanns og ég þakka henni fyrir söguna sem hún sagði áðan.

Ég vil aðeins koma inn á örfá atriði sem varða frv. og þá endurskoðun sem unnið er að í sérstakri nefnd fulltrúa stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Þar eiga þingflokkar stjórnarandstöðunnar ekki neinn hlut að máli og er það miður. Það virðist vera stefna og vinnubrögð núv. ríkisstjórnar í mjög mörgum málum að halda fulltrúum stjórnarandstöðunnar utan vinnu af þessu tagi þótt þar séu vissulega undantekningar á. En þeir koma sem sagt ekki að þessari vinnu nú og því eru ekki aðrar upplýsingar um þetta starf að hafa en það litla sem fram kemur í greinargerð og það er satt að segja afar takmarkað. Ef ekki kemur annað fram eða í ljós í þessari umræðu virðist verkefni fyrrgreindrar nefndar vera skilgreint fremur þröngt. Ég hefði viljað sjá hugmyndir og fyrirætlanir um miklu víðtækari endurskoðun sem ég tel alveg nauðsynlegt að fari fram til að stuðla að jafnræði skattgreiðenda.

Ég minni í þessu samandi á gamalt álita- og deilumál sem er samsköttun hjóna. Slíkri samsköttun var komið á 1985 ef ég man rétt frekar en 1986 og er að mínu mati ekki til þess fallin að treysta sjálfsmynd einstaklingsins. Þessi samsköttunarstefna er áréttuð í 6. gr. frv. sem hér er til umræðu þar sem einstaklingum í staðfestri samvist er gert skylt að telja fram og vera skattlagðir eins og hjón. Þetta er vafalaust hugsað og meint sem réttlætismál en þessi stefna er alls ekki af öllum talin réttlætismál eins og ég hygg að hæstv. fjmrh. kannist mætavel við. Þingflokkur Kvennalistans hafnaði þessari samsköttunarleið þegar hún var til umræðu og var lögfest árið 1985 og rökin fyrir þeirri afstöðu voru og eru fyrst og fremst tvenns konar:

Í fyrsta lagi er vegið að sjálfstæði einstaklinganna með því að tengja þá saman á þann hátt sem samsköttunarleiðin gerir. Reyndin er auðvitað sú að það eru nánast eingöngu konur sem þannig eru settar í þá stöðu að framselja persónuafslátt sinn til eiginmanna sinna en ekki öfugt. Ég veit dæmi þessi að þessi framsalsheimild hafi reynst kúgunartæki í höndum manna sem hafa ekki viljað missa þennan möguleika til frádráttar á sínum skattstofni og þar af leiðandi lagst gegn því að eiginkonur þeirra fari út á vinnumarkaðinn eftir tímabundna fjarvist þaðan til þess að sinna heimilisstörfum.

[17:00]

Í öðru lagi felst ákveðið óréttlæti í því að binda slíka samsköttun við hjón eða sambúðaraðila sem má jafna til hjóna eins og verið er að staðfesta með tillögunni í 6. gr. frv. Auðvitað eru til margs konar önnur sambúðarform en þau sem lögin taka þá til eftir að þetta hefur verið samþykkt, svo sem sameiginlegt heimilishald systkina, mæðgina og mæðgna, feðga eða feðgina. Þess vegna lögðum við þingkonur Kvennalistans ítrekað fram tillögur um útvíkkun þessarar lagaheimildar á þann veg að einstæðir foreldrar gætu nýtt ónotaðan persónuafslátt barna sinna sem ættu heimilisfesti hjá þeim. Þetta gerðum við á árunum 1989--1990 eða 1991, ef ég man rétt, og þá í ljósi þess að þetta heimildar\-ákvæði var augljóslega ekkert á leið út úr skattalöggjöfinni. Við töldum þá skárra að fleiri gætu notið þessa skattalega hagræðis eins og það er orðað sem heimildinni er ætlað að vera í heimilishaldi. En ákvæðið þarf endurskoðunar við.

Auðvitað á að styðja heimili landsins en það á að styðja þau á annan hátt og svo sannarlega mætti stokka allt þetta kerfi upp með það að markmiði að styrkja heimilin, styrkja fjölskyldurnar en jafnframt að treysta sjálfstæði einstaklingsins. Í því sambandi vil ég benda á eitt atriði sem ég bið hæstv. fjmrh. og hv. þm. að íhuga vegna þess að það atriði varðar jafnrétti eða öllu heldur misrétti kynjanna. Það er hvernig framtalseyðublöð eru úr garði gerð. Í samræmi við aldagamla hugsun, hefðir og viðhorf eru þau þannig sett fram að konur eru sem tryggilegast gerðar viðhengi eiginmanna eða sambúðarmanna sinna því karlmaðurinn er alltaf aðalframteljandinn og að sjálfsögðu talinn fyrstur en konan er í hliðarskúffu. Verður fróðlegt að fylgjast með hvernig menn leysa þetta á framtalseyðublöðum fólks í staðfestri samvist samanber 6. gr. Hvernig ætla menn að ákveða hver er höfuð fjölskyldunnar í þeim tilvikum? Kannski kallar þessi nýja hlið málanna á nýja hugsun og þá er það auðvitað hið besta mál. Ég bið menn að íhuga og átta sig á þessari myndbirtingu vanabundinna viðhorfa til hlutverka kynjanna og stöðu þeirra í sambúð og á heimili. Það er ekki til þess að efla sjálfsmynd kvenna að vera afgreiddar sem viðhengi karla í sambúð. Auðvitað á hver skattskyldur einstaklingur að fá sitt eigið eyðublað og skattleggjast sem einstaklingur þótt síðan verði tekið tillit til aðstæðna af ýmsu tagi, m.a. umönnunar heimilisfólks, barna, aldraðra eða sjúklinga. Fróðlegt væri að vita hve mikið samsköttun sambúðaraðila kosti og hve margar konur eru í hópi þeirra sem nýta skattkort maka. Ef til vill hefur hæstv. ráðherra þær tölur ekki á hraðbergi. Mig minnir að ég hafi einhvern tímann heyrt að það sé um 1,5 milljarðar kr. sem ríkissjóður er þá tilbúinn að vera án og mætti nýta á annan hátt til þess að styrkja stöðu fjölskyldunnar eða einstaklinganna. En það mætti þá ef til vill fá þessar tölur síðar.

Ég vil að sjálfsögðu taka skýrt fram að ég er ekki að gagnrýna með þessu að ríkissjóður komi til móts við þarfir einstaklinga eða heimila og létti undir með þeim. Þetta er spurning um leiðir og réttlæti í skattlagningu og þetta er spurning um sjálfstæði og sjálfsmynd einstaklinga. (Gripið fram í: Og hugarfarsbreytinguna.) Og hugarfarsbreytinguna margræddu og þá sem oft hefur verið leitað eftir og Sjálfstfl. er nú að bíða eftir. Auðvitað þarf að athuga mörg önnur atriði eins og niðurgreiðslu ríkisins á launakostnaði atvinnurekenda í sjávarútvegi sem birtist í skattfrádrætti sjómanna. Ef ég man rétt er þar um 1--2 milljarða að ræða sem er í raun og veru fáránlegt að ríkið sé að leggja útgerðarmönnum til. Þennan kostnað eiga útgerðarmenn að bera sjálfir rétt eins og aðrir launagreiðendur gera í sambærilegum tilvikum. Skattafslátturinn mun hafa komið til og verið lögfestur í tengslum við kjarasamninga fyrir allnokkrum árum og hafa haft þann tvíþætta tilgang að létta undir með útgerðinni sem þótti þá standa mjög höllum fæti og þann tilgang að taka tillit til aðstæðna sjómanna sem eru langdvölum frá heimilum sínum. Síðan hefur hvort tveggja gerst að hagur útgerðarinnar er allur annar og betri en ekki síður hitt að þessi skattafsláttur hefur færst til fjölmargra annarra en þeirra sem dvelja fjarri heimilum sínum. Menn sem bregða sér á sjó daglangt fá þennan afslátt, t.d. þeir sem sigla hér fram og aftur milli Akraness og Reykjavíkur, á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar og fleira mætti nefna. Ég hef ekki nokkurn skapaðan hlut á móti því að þessir menn hafi sómasamleg laun og satt að segja sem allra mest og best. Þeir eiga auðvitað skilið að fá góð laun eins og reyndar allt launafólk í landinu. En ég sé ekki að ríkið eigi að létta launabyrði af vinnuveitendum sjómanna umfram aðra. Ég tel að þetta ákvæði beri að endurskoða og ná samkomulagi við málsaðila um að færa þennan kjaraþátt í áföngum frá ríkinu til vinnuveitenda. Það eru þeir sem eiga að greiða þetta en ekki ríkið.

Þessu vildi ég koma á framfæri við umræðuna þótt margt fleira mætti nefna sem þarfnast endurskoðunar. Því miður hef ég ekki trú á að ætlunin sé að taka á þeim í því nefndarstarfi sem er í gangi og sagt er frá í greinargerð með frv.