Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 17:29:00 (1234)

1996-11-14 17:29:00# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[17:29]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er kannski fullmikið að tala um þetta sem beint andsvar. Ég held að ræða hv. þm. hafi átt hér erindi. Það liggur fyrir og hefur reyndar legið fyrir lengi að mikil atvinnuþátttaka hér á landi, bæði karla og kvenna og þó sér í lagi kvenna, veldur því að við höfum haldið uppi landsframleiðslu sem er áberandi há. En þegar litið er á unna tímaeiningu er framleiðnin mjög lítil. Þetta eru staðreyndir sem flestum eru ljósar. Það kann kannski að vera framlag í þessa umræðu að taka eftir því að líklega hefur atvinnuþátttaka kvenna vaxið á síðustu tíu árum þrátt fyrir að atvinnuleysi þeirra sé mikið. Þetta kemur nefnilega í ljós þegar tölur eru skoðaðar. Ef maður skoðar ekki atvinnuleysið heldur atvinnuþátttökuna þá hefur hún vaxið hjá konum á undanförnum árum en því miður hefur vinnumarkaðurinn ekki getað tekið nægilega mikið við þannig að skráð atvinnuleysi kvenna er nú meira heldur en þá var. Þetta eru staðreyndir sem ég held að sé hollt að átta sig á og þurfi að koma fram um leið og þær upplýsingar komu fram sem hv. þm. var með og auðvitað hafa mikla þýðingu.

Ég fyrir mitt leyti held að það sama sé að gerast hér og hjá öðrum nágrannaþjóðum þar sem miklar breytingar hafa orðið í atvinnurekstri. Þess mun sjá stað á næstunni og er kannski óumflýjanlegt og kannski eðlilegt og sjálfsagt að ungar menntaðar konur munu verða eftirsóttari starfskraftar en miðaldra körlum og eldri mun fjölga á atvinnuleysisskrá. Þetta er sú þróun sem við höfum séð í öllum okkar nágrannalöndum og fela í sér bæði vondar og góðar fréttir.