Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 17:32:43 (1236)

1996-11-14 17:32:43# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., SLJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[17:32]

Sigfús Leví Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að vera svolítið einlægur í upphafi máls míns og segja og viðurkenna að mér er svolítið öðruvísi innan brjósts í þessum ræðustól heldur en öðrum þeim sem ég hef farið í áður. Ég verð að hafa svolítinn formála á þessari ræðu minni en ég vil reyna að vera stuttorður og gagnorður því umræður eru orðnar langar.

Mitt kjördæmi er Norðurland vestra. Það hefur komið ítrekað fram að þar eru laun hvað lægst á landinu. Minn málflutningur hlýtur að mótast af þeim aðstæðum.

Ég hef farið nokkuð víða um mitt kjördæmi bæði til fundahalda og að hitta einstaklinga og ég hef gjarnan haft það fyrir venju að spyrja: Hvað er það sem kemur ykkur best? Svarið er nær undantekningarlaust hærri skattleysismörk. Á Norðurlandi vestra eru laun svo margra á bilinu 60--100 þús. kr. Kannski skil ég þetta betur en aðrir því ég er atvinnurekandi á Hvammstanga, og ég reikna gjarnan laun minna starfsmanna út sjálfur svo ég sé sjálfur hvernig málin standa. Ég ætla ekki að vera með neitt skítkast þó ég segi að kannski væri það ekki verra að fleiri hv. alþm. væru í slíkum störfum líka. Ábyggilega eru einhverjir í atvinnurekstri en því miður held ég að þeir séu of fáir.

Svarið kemur eðlilega þegar um það er rætt hvað kemur mönnum best: Hækkun skattleysismarka. Ég ætla að útskýra það aðeins betur. Hjá fólki sem er með um það bil 60--100 þús. kr. á mánuði fer helmingur launanna í skatta þegar komið er yfir skattleysismörk. Við verðum að athuga að fólk sem er á þessum lágu launum nær þessari upphæð ekki nema með mjög mikilli vinnu. Það eru ekki nema heilir 24 tímar í sólarhringnum og þó það ynni allan sólarhringinn þá fer helmingurinn í skatt sem umfram er skattleysismörkin. Ungt fólk í dag hefur ekki möguleika á að vinna sig út úr erfiðleikunum, vinna sig upp eins og við gerðum í gamla daga. Þetta getur ekki gengið það verður að taka á þessu. Þetta er meinsemd í samfélaginu í dag sem verður að taka á.

Ég hef nú hálfundrast hvað skattleysismörkin hafa lítið verið til umræðu hér í dag. Ég veit ekki hvers vegna. Þetta er svo mikið mál og ég vona sannarlega að hv. efh.- og viðskn., sem mun taka þetta til skoðunar eftir daginn í dag, skoði þetta mál vel og rækilega og ég treysti þeim ágætu mönnum vel til þess. Það eru þessir tveir þættir, þ.e. jaðarskattarnir og svo skattleysismörkin, sem mér finnst brenna meir á mönnum heldur en nokkuð annað. Ég veit að vísu að þeir sem eru með mjög lág laun hafa alls konar bætur. En það eru ekki nærri því allir. Það er ófært að í dag skuli vera sú staða að þetta lendir fyrst og fremst á ungu fólki, við skulum athuga það. Þetta er ekki fólkið sem er komi vel til vits og ára heldur unga fólkið sem á ekki neitt nema kjarkinn og viljann til að gera eitthvað og er að reyna að berjast áfram. Við megum ekki leggjast á það með of þungum sköttum, það getur ekki gengið í þessu samfélagi.

Ég verð nú að vera svolítið kannski strákslegur í lokin og segja það að fyrir mér sveitamanninum hefur það verið mjög mikil reynsla að vera þessa daga og ég hlakka til að vera með ykkur þessa daga sem eftir eru fram á miðvikudaginn. Fyrir mig, sveitamanninn þá verð ég að segja að þegar maður hlustar á ræðurnar þá er það eins og menn geti skiptst á ræðum hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Því miður verð ég að segja það að ég held að minn ágæti flokkur taki þátt í því ekki síður en aðrir. (Fjmrh.: Við erum svo sjaldan í stjórnarandstöðu.)