Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 17:59:47 (1238)

1996-11-14 17:59:47# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., Flm. VK (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[17:59]

Flm. (Viktor B. Kjartansson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. um afnám skylduáskriftar Ríkisútvarpsins sem hljóðar svo: ,,Alþingi ályktar að skora á menntamálaráðherra að leggja fram frumvarp um afnám skylduáskriftar almennings að Ríkisútvarpinu.``

Í dag er málum þannig háttað að eigendur sjónvarpstækja eru skyldaðir til að greiða 2.000 kr. til Ríkisútvarpsins á mánuði hverjum eða 24.000 kr. á ári. Ekkert tillit er tekið til þess hvort viðkomandi nýtir sér að einhverju leyti dagskrá Ríkisútvarpsins. Ekki er því um þjónustugjald að ræða líkt og gerist með sams konar þjónustu er ríkið veitir almenningi. Á síðustu árum hafa orðið gjörbreytingar á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Í stað einnar ríkisrásar í hljóðvarpi og sjónvarpi getur almenningur valið um fjölda innlendra útvarps- og sjónvarpsstöðva. Afnotagjöld Ríkisútvarpsins raska þannig eðlilegri samkeppni á þessum markaði og gengur sú skipan mála þvert gegn markmiðum samkeppnislaga og því almenna viðhorfi að gæta eigi jafnræðis á milli aðila í atvinnurekstri. Því má segja að skylduáskrift að Ríkisútvarpinu sé dæmi um úrelta skipan mála í ríkisrekstri sem átti við þegar ríkið hafði einokun á þessu sviði. Ríkisútvarpið er í samkeppni við einkaaðila bæði á markaði fyrir áskriftir og auglýsingar. Almenningur er þannig þvingaður til áskriftar að Ríkisútvarpinu sem takmarkar svigrúm margra, einkum þeirra tekjulægri, til að kaupa áskrift að öðrum fjölmiðlum.

Það er þetta atriði, herra forseti, sem er meginatriði málsins. Að ríkið sé ekki að leggja hömlur á valfrelsi almennings. Það verður að teljast grundvallaratriði í frjálsu markaðsþjóðfélagi að almenningur hafi frelsi til að velja vöru og þjónustu í samræmi við þörf og áhuga. Niðurfelling afnotagjalda er því réttlætismál bæði í skilningi valfrelsis neytenda og jafnræðis milli keppinauta á sama markaði.

Nú hefur verið spurt: Hvernig á að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins? Og hvað verður þá um rekstur Ríkisútvarpsins? Ég tel að endurskilgreina þurfi rekstur Ríkisútvarpsins og aðgreina þá menningarlegu starfsemi útvarpsins sem menn telja að sé þess virði og eðlilegt að halda úti af ríkinu og greiða þá fyrir slíka starfsemi af fjárlögum. Það er hins vegar engin ástæða, herra forseti, fyrir ríkið að spila popptónlist og vinsældalista sem aðrir geta boðið upp á. Ef ríkið á að halda úti slíkri starfsemi af hverju á þá ekki að halda úti ríkisdagblaði eða ríkisskipafélagi sem aðrir einkaaðilar geta boðið nú þegar? Það eru engin rök sem mæla með því að ríkið sé að halda úti einhvers konar dagskrá sem ekki telst hafa menningarlegt gildi eða það sérstaka gildi að menn telji ástæðu til að ríkið haldi úti slíkri starfsemi. Það er grundvallaratriði. Einnig gæti Ríkisútvarpið komið sér upp áskriftarkerfi líkt og einkastöðvarnar gera og keppa um þá starfsemi sem er í samkeppni nú þegar við einkastöðvarnar. Að keppa þá við þær með slíku áskriftarkerfi.

Með öðrum orðum við skulum ekki gera það að trúarbrögðum að ríkið sé að halda úti starfsemi sem einkaaðilar geta sinnt og sinna mjög vel. Við skulum heldur endurskilgreina rekstur Ríkisútvarpsins. Taka út þá menningarlegu starfsemi og þá sérstöku starfsemi sem ríkið vill halda í, greiða fyrir slíka starfsemi af fjárlögum en leyfa heldur einkaaðilum og þeim stöðvum, sem nú þegar starfa, að halda úti starfemi sem höfðar meira til almennings og þess meiri hluta sem nýtir sér þjónustu útvarps og sjónvarps. Við skulum láta slíka starfsemi ekki vera í höndum ríkisins.