Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:30:04 (1248)

1996-11-14 18:30:04# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., Flm. VK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:30]

Flm. (Viktor B. Kjartansson) (andsvar):

Herra forseti. Það virðist vera mikill misskilningur í gangi í umræðunni um að þessi tillaga gangi út á að leggja Ríkisútvarpið niður. Ef það væri einlægur vilji flm. að gera slíkt mundi tillagan ekki hljóða eins og hún gerir. Ef hv. þm. lesa geinargerðina þá er verið að ræða um það óréttlæti sem ríkir á markaði.

Ef sá sem hér stendur væri að reka fjölmiðil eða ákvæði að opna útvarps- eða sjónvarpsstöð hlýtur það að vera óþolandi fyrir hvern þann sem í því stendur að þurfa að eiga í svona ósanngjarnri samkeppni. Það er miklu hreinlegra að taka út þá starfsemi sem almenn sátt ríkir um í þjóðfélaginu að halda úti og greiða hana úr sameiginlegum sjóðum. Það er mun skynsamlegra en að skylda fólk, sem ef til vill hefur ekki áhuga á að nýta sér þessa starfsemi, til þess að borga 2.000 kr. á mánuði burt séð frá því hvort það nýtir sér hana eða ekki. Það er þá mun hreinlegra að hafa þessa menningarlegu starfsemi og þá starfsemi sem sátt ríkir um á fjárlögum og leyfa annarri starfsemi að vera vistuð annars staðar.

Einnig benti hv. þm. á sjálfstæði stofnunarinnar og að hún yrði skert og vegið yrði að henni. Þessi tillaga gengur ekki út á það. Hún gengur eingöngu út á mjög afmarkaðan þátt sem er skylduáskrift. Ég vil ítreka það svo það valdi ekki frekari misskilningi í þingsal.