Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:43:44 (1252)

1996-11-14 18:43:44# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:43]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir var ekki heppin í þessari tilvitnun sinni. Menningarsjóður útvarpsstöðva er þannig fenginn að teknir eru peningar af auglýsingatekjum Ríkisútvarpsins og einkastöðvanna, þ.e. Stöð 2 borgar í þann sjóð líka, og síðan gengur megnið af því fjármagni til Sinfóníuhljómsveitarinnar. Þannig að þessir fjármunir lenda, því miður, ekki til baka til stöðvanna nema að litlu leyti. Þetta er skattlagning. Ég vil hins vegar taka fram að það getur vel verið að hv. þm. hafi mismælt sig áðan þegar hann sagði að nauðsynlegt væri að viðhalda fjármögnun Ríkisútvarpsins úr sameiginlegum sjóðum, en hann sagði þetta orðrétt. Það getur vel verið að það hafi verið mismæli og ekki nema í besta lagi með að hann leiðrétti það.

[18:45]

Hins vegar langar mig aðeins til að benda á að það væri í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þótt Ríkisútvarpið yrði fjármagnað með nefskatti í staðinn fyrir afnotagjöld eða jafnvel af fjárlögum. Það þýddi þá að þegar samdráttartímar eru verði Ríkisútvarpið að haga sér eins og aðrar ríkisstofnanir og sýna hagkvæmni og sparnað en ekki að gera eins og hefur verið undanfarið, að á sama tíma og allar aðrar ríkisstofnanir og einkastöðvarnar líka verða að sýna sparnað er Ríkisútvarpið hafið yfir þennan heim.

Ég vil einnig geta þess að afnotagjöldin hafa ýmsa aðra galla. Þau leggjast t.d. þyngra á þá sem búa einir, einyrkjana, þyngra en t.d. á fjölskyldurnar sem skattur ef menn vilja líta á þau sem skatt. Ef Ríkisútvarpið væri fjármagnað af fjárlögum þá mundu miklu færri greiða fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins vegna þess að skattgreiðendur á Íslandi eru ekki nema helmingur þjóðarinnar.