Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:58:37 (1257)

1996-11-14 18:58:37# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:58]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta atriði vil ég benda á að ríkisvaldið getur að sjálfsögðu gert þjónustusamninga við einkareknar stöðvar eins og það í rauninni gerir með menningarsjóðnum. Það getur jafnvel boðið út ákveðna menningarstarfsemi og fengið einkastöðvarnar til að bjóða í það. Þetta er enginn vandi að gera. Það mætti þá setja þennan nefskatt á alla Íslendinga, lækka hann kannski niður í 10--15 þús. kr. á ári og nota þá peninga til að fjármagna útboð á menningarstarfsemi, nákvæmlega eins og Menningarsjóði útvarpsstöðva er ætlað að gera. Þannig að það eru til margar leiðir. Það mætti líka láta menn borga fyrir að fá sjónvarpsrásir með því að skylda menn til að láta einhvern hluta af auglýsingatekjunum eins og gert er í dag, renna í ákveðinn sjóð sem síðan yrði notaður til að stunda menningarstarfsemi. Og það mætti gera með útboðum og með þjónustusamningum.