Afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 18:59:49 (1258)

1996-11-14 18:59:49# 121. lþ. 24.15 fundur 127. mál: #A afnám skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[18:59]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegur forseti. Eitthvað erum við hv. þm. Pétur H. Blöndal nú farnir að nálgast hvor annan og mér þykir vænt um það, því að á hreinum viðskiptagrundvelli er ekki hægt að reka menningarstarfsemi í ljósvakamiðlunum, það liggur alveg ljóst fyrir. Framleiðsla efnis fyrir sjónvarp er of dýr og fyrir svo lítinn markað sem Ísland er þetta ekki hægt. Menn verða að gera sér grein fyrir þessu. Ef Ríkisútvarpið verður gert að áskriftarsjónvarpi og rekið á sama grundvelli og Stöð 2, verður Ríkisútvarpið smám saman nákvæm eftirlíking af Stöð 2. Þannig hefur þetta gerst úti um allan heim að einkastöðvarnar eru hver annarri líkar. Það vantar feikilega margar víddir í starfsemi þessara stofnana sem menn hljóta að sakna en sakna ekki eins mikið vegna þess að þeir hafa ríkisstöðvarnar til að fylla upp í gatið. Auðvitað er hægt að ímynda sér margar leiðir til að virkja einkastöðvarnar til að taka á þessu hlutverki og þá getum við hv. þm. Pétur H. Blöndal verið sammála um að það ber að leita leiða til að virkja einkastöðvarnar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það eigi að halda sterkri starfsemi Ríkisútvarpsins áfram, einkum og sér í lagi vegna þess að þessar stofnanir stunda menningarstarfsemi og gegna uppeldishlutverki og á þeim grundvelli er ekki hægt að reka starfsemi þar sem menn spyrja um hvað fólk vill horfa á og hvað fólk vill hlusta á. Ég legg til að hv. þm. velti fyrir sér hvað mundi gerast í skólum landsins ef þar væri eingöngu sagt það sem menn vilja hlusta á eða sýnt það sem menn vilja horfa á. Það verður að meta starfsemi ljósvakamiðlanna í samræmi við þeirra tvöfalda hlutverk. Annars vegar stunda þeir mjög mikilvæg viðskipti sem skipta miklu máli og eru þjóðinni mikils virði en að hinu leytinu stunda þessir miðlar mikilvæga menntunar- og menningarstarfsemi.

[19:00]