Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:01:49 (1264)

1996-11-14 21:01:49# 121. lþ. 24.6 fundur 146. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (rekstrartap, afskriftareglur, hlutabréf o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:01]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er stundum nokkuð undrandi á hvernig hv. þm. leggur mál hér upp. Nú þykist ég vita að hv. þm. sé áhugamaður vegna þess að hann þekkir vel til í atvinnulífi, á hlut í stórum fyrirtækjum, að hann vilji lengja í því tímabili sem má nota til að færa yfirfæranlegt tap. Ég held að hann sé áhugamaður um það. En nú kemur hann í ræðustól og gefur í skyn að ríkið sé að tapa 2 milljörðum á þessari breytingu. Það mætti jafnvel ímynda sér það. Væri ekki nær fyrir hv. þm. að taka heildardæmið og skoða heildarbreytinguna sem hefur orðið frá því að við snertum fyrst við þessu máli 1991 og núna og segja okkur hvað við erum að græða mikið þegar við vitum að heildaryfirfæranlegt tap er 75 milljarðar og það situr kannski eftir helmingurinn af því. Hugsum okkur það. Það eru 30 milljarðar eða eitthvað svoleiðis sem við erum að strika út. Á ég þá ekki að halda því fram að ég sé að taka 10 milljarða af atvinnurekstrinum í ríkissjóð með sömu rökum? Ég bið hv. þm. að vara sig þegar þeir eru að koma hér með tölur og byggja það þannig upp að þessi og hinn sé að græða þegar í raun og veru er ekki hægt að svara fyrirspurninni. Ef það er rétt hjá hv. þm. að möguleiki sé á því að ríkið tapi 2 milljörðum vegna þessa þá get ég sagt að ríkið sé að græða tugi milljarða á heildarbreytingunni sem er að verða á þessum áratug.