Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:26:44 (1271)

1996-11-14 21:26:44# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:26]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi vegna síðustu spurningarinnar skal tekið fram að atvinnuleysi hefur nokkuð breyst, þ.e. skráð atvinnuleysi, og það eru fleiri sem eru kannski atvinnulausir að hluta til sem eru í heildartölunni og það breytir líka þörf sjóðsins.

Ég get tekið undir það sem hv. þm. sagði að ég tel að það þurfi að liggja skýrt fyrir hvernig farið er með réttindi þessara einstaklinga í atvinnurekstri, bænda, trillusjómanna og vörubílstjóra, út úr sjóðnum. Að öðrum kosti fyndist mér hreinlegra að kippa þeim út úr kerfinu eða taka 1,35% af og segja að þeir verði þá að leita annarra úrræða. Það verður enn að bæta við þetta að það eru ekki sömu sjónarmiðin uppi frá mínum sjónarhóli séð annars vegar hvað snertir bændur og hins vegar þær tvær greinar aðrar eins og vörubílstjórana og trillusjómennina því það er miklu auðveldara að leggja trillu og taka númer af bifreið en hætta að búa og láta frá sér kvótann. Það sjá allir í hendi sér. Í raun og veru finnst mér kannski að það sjónarmið sem varðar bændastéttina miklu alvarlegra því í raun og veru er verið að gera mönnum það að þeir geti ekki aftur horfið að búskap. Það er kannski auðveldara fyrir hina að byrja á nýjan leik.

Frv. sem ég hef verið að vísa til er frv. til breytinga á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð sem hefur þegar farið í gegnum þingflokka stjórnarflokkanna og ég hélt satt að segja að hefði verið lagt fram áður en þessi umræða fór fram en það hefur greinilega ekki tekist. Það frv. mun birtast alveg á næstu dögum. Gert er ráð fyrir því í 1. gr. frv. að ráðherra geti með reglugerð leyst úr málinu en í almennri greinargerð með frv. er sagt frá því að nefnd manna, m.a. skipuð fulltrúum bænda, trillusjómanna og vörubifreiðastjóra sé að vinna að lausn málsins og hún muni væntanlega sjá dagsins ljós innan tíðar og þá verður sú lausn væntanlega tekin inn í það frv.