Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:38:28 (1274)

1996-11-14 21:38:28# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:38]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Í framhaldi af ræðu hv. þm. Egils Jónssonar vil ég geta þess að við mættum, samkvæmt löggjöf og EES-samningnum, viðhalda mismunandi tryggingagjaldi á landbúnað og sjávarútveg. Það er ekkert sem bannar okkur það. Þetta frv. gengur hins vegar út á samræmingu þessara gjalda milli atvinnugreina. Það er hin pólitíska ákvörðun sem felst í frv. Það er pólitísk stefna sem ég styð. Ég styð þetta frv. ríkisstjórnarinnar. Ég tel vera heilbrigt fyrir atvinnuvegina að sambærilegt skattaumhverfi sé því þetta er skattur. Tryggingagjaldið er skattur nákvæmlega eins og hæstv. fjmrh. vék að. Aðvitað skoða menn áhrif þessa á einstaka atvinnuvegi. Vitaskuld gera menn það í þinglegri meðferð en ég er andvígur því að búnar verði til undanþágur í þessari pólitísku stefnu.

Afstaða okkar jafnaðarmanna kom skýrt fram hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni að við styðjum þetta en okkur finnst þessi aðlögunartími, fjögur ár, vera býsna langur. Við sættum okkur hins vegar alveg við þá útfærslu en teljum að alveg hefði mátt stíga þessi skref hraðar. Þetta er eðlilegt og í samræmi við það sem menn hafa verið að gera, þ.e. að breyta löggjöf á undanförnum árum oh upphefja mismun í löggjöf gagnvart einstökum atvinnugreinum. Við eigum að halda áfram á því sviði. Þetta hittir sjávarútveginn vitaskuld mjög illa í augnablikinu en til lengdar er heilbrigt fyrir sjávarútveginn að búa við sama skattalegt umhverfi og aðrar atvinnugreinar og það á einnig við íslenskan landbúnað. Síðan verða menn vitaskuld að ræða ef til vill einhverjar frekari endurbætur á verðlagningarkerfi o.s.frv. Ég veit um sérstöðu landbúnaðarins um ýmsa þætti en það er annað mál. Hér er verið að taka prinsippákvörðun um hvort að gilda eigi sambærileg skattalög um einstaka atvinnuvegi og það er sú stefna sem ég styð.