Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:41:39 (1276)

1996-11-14 21:41:39# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:41]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það frv. sem er til umræðu lætur meira yfir sér en frsm. lætur í veðri vaka og ætla mætti af þeim umræðum sem þegar hafa farið fram. Það er að vísu rétt, sem lagt er upp með sem aðalforsendu málsins, að um samræmingu er að ræða milli atvinnugreina. En þó er það ekki rétt nema að hluta til. Það er rétt að því leytinu til að menn eru að samræma prósentur. En menn eru ekki að samræma álögur á atvinnugreinar. Menn eru að ganga í þveröfuga átt varðandi álögur á atvinnugreinar. Menn eru að auka álögur á sumar atvinnugreinar og létta álögum af öðrum. Það þarf svolítið öfluga röksemdafærslu að halda því fram að það sé samræming að auka skatta á sjávarútveg um 700 millj. Ég spyr samræming við hvað? Er það einhver samræming að auka skatta á sjávarútveg og lækka skatta á verslun? Eins og ég sagði má halda því fram að það sé samræming að því leytinu til að menn eru að samræma prósentutölur. En prósentutölur eru ekki veruleikinn. Það eru fjárhæðir sem er veruleikinn fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Menn eru ekki að samræma fjárhæðir. Menn eru þvert á móti að misjafna frá því sem nú er. Þetta vildi ég draga fram, virðulegi forseti, þannig að þeir sem fylgjast með þessari umræðu standi ekki í þeirri meiningu og trúi því sem nýju neti að menn séu ekkert annað að gera en að samræma á milli aðila. Það felst meira í málinu, eins og ég hef rakið. Menn geta haft skoðanir á því hvort hlutirnir eigi að vera eins og lagt er til í frv. eða eins og þeir eru í dag. Það er auðvitað ekkert sjálfgefið eða endanlegur sannleikur í því að hlutirnir eigi að vera eins og þeir eru í dag. Ég er ekki talsmaður þess endilega að óbreytt ástand sé það sem eigi að vera um aldur og ævi. Því fer víðs fjarri. En ég er heldur ekki sannfærður um að hin rétta leið sé sú sem lögð er til í frv. Ég er ekki sannfærður um að það styrki mikið stöðuna í fiskvinnslu á Íslandi sem í dag er rekin með verulegu tapi og er að mæta því tapi með því að fækka störfum í atvinnugreininni, svipta fólk vinnu. Ég er ekki endilega viss um að það sé rétt leið í dag að auka álögurnar á þessa atvinnugrein um 65 millj. kr. á ári, eins og kom fram í máli hæstv. fjmrh. Ég er heldur ekki sannfærður um það, í þeirri stöðu sem landbúnaður er í hér á landi um þessar mundir, að það sé rétt leið að auka álögur á landbúnað um tugi milljóna á hverju ári. Og ber þá að hafa í huga að íslenskir sauðfjárbændur eru meðal fátækustu manna hér á landi og þurfa þingmenn ekki víða að fara til að sannfærast um þá staðreynd.

[21:45]

Það eru því, herra forseti, tvær hliðar á hverju máli og það eru þær líka í þessu tilviki. Ég er fjarri því sannfærður um að menn séu að stíga skref til góðs með að íþyngja frekar þeim atvinnugreinum sem í dag eru reknar með tapi eða reknar fyrir lág laun þeirra sem við þær starfa. Er líklegt að þessar atvinnugreinar, eins og t.d. fiskvinnsla, geti borgað hærri laun á næsta ári eftir að búið er að auka álögunar á þær fyrir kjarasamningana? Eru menn talsmenn þess, með stuðningi við þetta mál, að laun í atvinnugreinum eins og fiskvinnslu verði hækkuð minna í næstu kjarasamningum en laun annarra eins og t.d. laun í verslun? Og dreg ég ekkert úr því að starfsfólk í verslun þurfi sína kauphækkun. En ég spyr: Eru menn á þeirri skoðun að þeir sem starfa við landbúnað eða í fiskvinnslu eigi að fá minni launahækkun en hinir? Eru það skilaboðin frá hæstv. ríkisstjórn til launamanna í þessum atvinnugreinum? Og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að það sé ásetningur manna í þessari virðulegu stofnun að búa svo um hnútana að þeir stýri málum til þeirrar niðurstöðu að kauphækkanir verði misjafnar eftir atvinnugreinum, því það eru verulegar líkur á því að svo geti farið eftir þá stefnubreytingu sem orðið hefur hjá Vinnuveitendasambandi Íslands sem býður upp á atvinnugreinatengda samninga. Það heitir ekki samræming í mínum augum eða eyrum, herra forseti, að ganga svona fram í þessu máli.

Ég bendi mönnum á annan veruleika sem við búum líka við í dag sem þarf að hafa í huga þegar ríkisvald gengur frá sínum ákvörðunum í efnahagsmálum. Við búum við það ástand að þessar tvær atvinnugreinar sem helst er verið að íþyngja eru höfuðatvinnugreinar landsbyggðarinnar. Nær öll íþyngingin í þessari samræmingu hæstv. fjmrh. kemur fram úti á landi. Megnið af íviluninni kemur fram á höfuðborgarsvæðinu. Gott og vel með það. Við skulum ekki sjá ofsjónum yfir því. En við bara búum við þann veruleika að ástandið í dag og á undanförnum mörgum árum hefur verið þannig að fólkið hefur verið að hrekjast utan af landi og hingað á höfuðborgarsvæðið. Og er þessi aðgerð góð inn í þetta samhengi? Ég hélt að stjórnvöld á Íslandi litu á það sem sitt hlutverk að reyna að stemma stigu við því að búa til skilyrði sem leiða af sér þá þróun sem við höfum búið við. Ég hef talið að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi væru um það sammála að vinna að því að skilyrði um land allt væru sem jöfnust þannig að menn mættu búa um landið við sem sæmilegust skilyrði óháð aðgerðum ríkisvaldsins til þess misjafna þau skilyrði. Staðan eins og hún er og hefur verið er afleit. Þessar aðgerðir gera bara vont verra í atvinnumálum. Það er ekki sama við hvaða aðstæður menn eru að starfa og við hvaða aðstæður menn eru að taka sínar ákvarðanir í einstökum málum. Ákvarðanir sem kunna að geta verið ásættanlegar við tilteknar aðstæður í atvinnumálum geta verið óásættanlegar við aðrar aðstæður. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að aðstæður eru að mörgu leyti óásættanlegar og jafnvel slæmar víða í þessum atvinnugreinum sem er verið að íþyngja. Ég tel ekki skynsamlegt að ganga fram eins og lagt er til í þessu frv. en með því er ég ekkert að segja að ég væri endilega ósammála þessum tillögum ef aðstæður væru öðruvísi. Það er ekki rétt að setja fram rígbundnar skoðanir í þeim efnum.

Herra forseti. Ég hef dregið fram þau áhersluatriði sem ég hef talið nauðsynlegt að kæmu hér fram þannig að þingheimur mætti vera þess meðvitaður að þessi sjónarmið til málsins eru til og ég tel mig hafa rökstutt þau bærilega.