Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 21:52:05 (1277)

1996-11-14 21:52:05# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[21:52]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Tryggingagjald er launaskattur. Þegar verið er að ræða um 5,5% skattlagningu er verið að tala um samræmdan launaskatt. Nú er launakostnaður mjög misjafn milli atvinnugreina. Við getum tekið tölvuiðnað sem er kannski með 80% launakostnað. Þetta lendir mjög þungt á honum. Við getum tekið saltfiskverkun sem er með 10 til 15% launakostnað. Skattlagning sem þessi lendir tiltölulega létt á slíkri atvinnugreinum. Ef við erum að skattleggja laun á annað borð þá ber að gera það á samræmdan hátt. Þetta er tekjuöflunartæki fyrir ríkissjóð. Það á að vera óháð atvinnugreinum. Það kerfi sem við höfum haft hingað til hefur mismunað greinum. Það hefur verið ívilnum gagnvart tilteknum greinum af sögulegum ástæðum. Það þarf ekkert að fara yfir það. Það er kerfið sem við höfum verið með núna. Þegar við hverfum af þeirri braut snúum við vitaskuld af ívilnun yfir til jöfnuðar á tilteknum tíma.

Nú er hins vegar hægt að segja og raunverulega ætti umræðan að snúast um það, að launaskattur eins og tryggingagjald er í sjálfu sér ekki hagkvæm skattlagning. Hún er ekki atvinnuskapandi skattlagning. Það eru til betri skattlagningaraðferðir en launaskattur. Við getum rætt um það lengi en við skulum ekki gera það núna. En úr því að við búum við þetta skattlagningarform og það liggja ekki fyrir tillögur um að breyta því í grundvallaratriðum, er réttmætt að þessi skattlagning eigi að vera samræmd milli atvinnugreina. En vitaskuld leggst hún misþungt á einstakar atvinnugreinar vegna þess að launakostnaður er mjög mismunandi í atvinnugreinum. Það erum við hins vegar ekki að skattleggja. Við erum að skattleggja af hálfu ríkisins það að greidd séu laun og það á að vera algjörlega og er samkvæmt öllum eðlilegum reglum, óháð því hvaða atvinnugrein um er að ræða. Það er grundvallarákvörðunin sem felst í þessu frv. og í umræðunni sjálfri. Ekki hefðbundin afkomuumræða.