Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:05:47 (1283)

1996-11-14 22:05:47# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:05]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég upplýsa það að samkvæmt EES-samningnum mætti hafa mismunina alveg ótvírætt gagnvart íslenskum landbúnaði. Mjög líklega líka gagnvart útgerðinni. Það yrði sennilega að láta reyna á það en svona er EES-samningurinn þannig að það er ekki nauðsynlegt að breyta þessu út af því gagnvart þessum atvinnugreinum sem menn eru hér fyrst og fremst að tala um. Ég er ekki að tala fyrir þessu máli vegna þess að ég telji að sjávarútvegurinn geti sérstaklega borið þessar 700 millj. sem hann á að gera. Ég hef áhyggjur af ýmsu sem er að gerast í íslenskum sjávarútvegi, ekki hvað síst í botnfiskvinnslunni sem fær skattaaukningu upp á 255 millj. Ég hef áhyggjur af því. Ég tel hins vegar að við verðum að reyna að ræða málið á grundvelli þess hvort við eigum, eins og lagt er upp í frv., að stíga ákveðin skref til að draga úr þeirri mismunun og ívilnun sem hefur gilt gagnvart ákveðnum atvinnugreinum.

Ég nefndi áðan að þetta raskar núverandi stöðu. Vitanlega gerir það það. Sumar greinar tapa á þessu, sjávarútvegurinn alveg klárlega. Ég held hins vegar að til lengdar sé það heilbrigðara og betra fyrir sjávarútveginn að búa við sambærilegt skattaumhverfi og aðrar atvinnugreinar. Það á við um landbúnaðinn líka. Ekki hvað síst þegar við erum að tala um skattlagningu á laun, þ.e. einfaldan launaskatt í landinu. Það á ekki að vera mismunur af hálfu ríkisins hvort launin séu greidd í landbúnaði, sjávarútvegi, hugbúnaði, verslun eða öðru slíku. Við getum mismunað í öðrum þáttum skattkerfisins en við eigum ekki að gera það hvað viðvíkur launaskattinum. Það er ekkert heilbrigði fólgið í þeirri skattastefnu þótt svo ég hafi mjög miklar efasemdir um launaskattinn yfirleitt og get fært mörg rök fyrir því að við ættum í sjálfu sér að fella niður þetta tryggingagjald. Það væri hægt að gera það en á meðan við búum við það þá á það að vera jafnt milli atvinnugreina.