Tryggingagjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:18:18 (1286)

1996-11-14 22:18:18# 121. lþ. 24.7 fundur 145. mál: #A tryggingagjald# (gjaldhlutfall) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:18]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki beinlínis andsvar við ýmsum þeim bollaleggingum sem komu fram hjá hv. þm., sem kannski voru ekki beinlínis tengdar nákvæmlega þessu frv. en áttu erindi í umræðuna eigi að síður. Ég vildi einungis vegna orða hans undirstrika það í fyrsta lagi að hér er verið að leggja til samræmingu sem gerir ráð fyrir því að annars vegar hækki hlutfall og hins vegar lækki það. Það lækkar hjá sumum greinum en hækkar hjá öðrum. Ég ætla ekki að fara frekar út í það.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. og ég tek undir það, að í raun og veru er það slæmur kostur að leggja skatta á veltu án tillits til afkomu en réttlætingin hér, eins og víðast annars staðar, fyrir þessum skatti er að skatturinn er notaður til útborgunar til launamanna alveg sérstaklega. Annars vegar í Atvinnuleysistryggingasjóð sem einungis launamenn fá greitt úr, reyndar er hugmyndin að sjálfstæðir atvinnurekendur fái líka notið fjármuna úr þeim sjóði. Hins vegar er hugsunin sú að þessir fjármunir renni, ef hægt er að tala um að þeir renni í einhvern sérstakan farveg, til lífeyristryggingakerfisins og sjúkratryggingakerfisins. En þeir duga ekki þannig að það þarf að bæta við, ríkissjóður þarf að bæta við fjármunum. En þetta atriði réttlætir það að launin eru notuð sem stofn, af því hv. þm. tók dæmi af manninum sem fækkaði starfsfólki og keypti vélina. Ef vélin yrði stopp þýddi lítið að fara í almannatryggingarnar eða Atvinnuleysistryggingasjóð og fá bætur úr þeim sjóðum til vélarinnar því þessar bætur eða útgjöld ganga einungis til launafólksins. Það er það sem réttlætir að álagningin sé á þennan sérstaka tiltekna stofn, bæði hérlendis og erlendis.