Vörugjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:30:16 (1288)

1996-11-14 22:30:16# 121. lþ. 24.8 fundur 142. mál: #A vörugjald# (gjaldflokkar, lækkun gjalda) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:30]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta frv. gengur út á það að lækka vörugjald um 300 milljónir. Þetta er ekki EES-mál heldur í framhaldi af fyrri lækkun vörugjalds. Við erum í sjálfu sér fylgjandi lækkun vörugjalds, teljum það eðlilegt og í samræmi við ábendingar sem hafa komið fram um þessa málaflokka, m.a. af hálfu EES. Þó svo það megi velta fyrir sér rökstuðningi fyrir einstökum flokkum.

En það sem málið snýst um, herra forseti, er hvort eitthvað sé að marka þetta frv. vegna þess að það hangir við fyrra frv. um breytingu á tryggingagjaldi. Þessi tvö frv. tengjast. Annað minnkar tekjur ríkisins, hitt eykur tekjur ríkisins. Í fyrri umræðunni komu hér fram þrír stjórnarþingmenn sem töluðu gegn tryggingafrv. Þeir vildu viðhalda þeirri mismunun sem núna er í gildi varðandi tryggingagjaldið sem segir okkur að ef þetta er rödd meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna er tekjuöflunin fyrir þetta frv. dottin niður. Ég vil því spyrja, herra forseti: Er nokkur ástæða sé til að ræða þessi mál eittvað frekar? Þarf ekki að liggja fyrir eitthvað skýrar af hálfu ríkisstjórnarinnar, vegna þess að málin hanga saman? Og hvað með þessar óvanalegu yfirlýsingar þriggja stjórnarþingmanna varðandi fyrra málið sem fjármagnar vörugjaldsmálið? Ég óska eftir því, herra forseti, að hæstv. fjmrh. geri betur grein fyrir pólitískri stöðu þessa máls. Það er ekki hægt að ætlast til að við séum, eins og við höfum nú reynt að gera, að ræða málin á faglegum forsendum og tekið meira að segja undir þætti í báðum þessum frv. ef síðan kemur í ljós að ekki er vilji ríkisstjórnarinnar eða meiri hluta í ríkisstjórninni að knýja á um að þessi mál nái fram.

Við vitum að sjávarútvegs- og landbúnaðarlobbíið í Sjálfstfl. fer hamförum gegn fyrra frv. Ég óska eftir að ég verði upplýstur um það hvort þessi umræða hafi einhvern tilgang.