Vörugjald

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:32:28 (1289)

1996-11-14 22:32:28# 121. lþ. 24.8 fundur 142. mál: #A vörugjald# (gjaldflokkar, lækkun gjalda) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:32]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er að því leytinu ESA-mál að hér er verið að ljúka ákveðnu verki sem við tókum að okkur og lofuðum að ljúka og var byggt á víðtæku samkomulagi. Það er nú kannski fullmikið að segja að um það sé víðtækt samkomulag en það byggist að minnsta kosti á víðtækum skilningi margra aðila sem að því máli komu. Við höfum því ekki lokið afgreiðslu málsins af hálfu þingsins fyrr en þetta frv. er orðið að lögum.

Vegna fyrirspurnar hv. þm. skal það tekið fram að bæði þessi frv. eru stjfrv. og ég er að mæla fyrir þeim sem slíkum. Mér var kunnugt um einstakar athugasemdir sem gerðar voru í þingflokki sjálfstæðismanna. Ég tel að því hafi verið svarað sem kom fram af hálfu hv. þm. Egils Jónssonar um að það þurfi að gæta að réttindum bænda og kannski fleiri sjálfstæðra atvinnurekenda í Atvinnuleysistryggingasjóði og ég fellst á það. Um það var rætt og var rætt í ríkisstjórninni og í þingflokkunum.

Hitt sem hv. þm. Sturla Böðvarsson minntist á tel ég að sé sjálfsagt að líta á. Ég tel að þegar tekið er tillit til þess sem kemur fram til að mynda í yfirfæranlega tapinu, þá sé komið verulega til móts við sjávarútveginn. Og sé það rétt sem hv. þm. Ágúst Einarsson hélt fram, þ.e. að það væri gjöf ríkissjóðs upp á 1,5--2 milljarða, hygg ég nú að sjávarútvegurinn eigi drjúgan hluta af þeirri gjöf. Ég hef ekkert á móti því að þessi mál séu skoðuð öll saman í einu en ítreka að bæði frv. eru stjfrv. eins og önnur stjfrv. sem hér hafa verið flutt.