Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:57:26 (1297)

1996-11-14 22:57:26# 121. lþ. 24.11 fundur 147. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (iðgjöld, stigaútreikningur, ávöxtun o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:57]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist að hér sé gott og eðlilegt frv. á ferðinni. Hér er verið að gera breytingar og laga Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda að breyttum aðstæðum.

Það er einungis ein spurning sem mig langar til að spyrja um þetta mál. Það er í sambandi við auknar heimildir til Spalar, þ.e. að bæta við 70 millj. Ef hæstv. fjmrh. gæti skýrt þetta aðeins betur. Af hverju er þessi sjóður eitthvað sérstaklega inni í fjármögnun við Spöl? Hverjar eru þessar yfirlýsingar og hvað kallar á viðbótarfjármögnun? Er einhver viðbótarfjárþörf á ferðinni? Er eitthvað að gerast í sambandi við þetta Spalarmál, sem rétt væri að upplýsa hér, úr því að beðið er um alveg sérstakar heimildir, en það er dálítið óvanalegt að sett séu inn í lög heimildir til að kaupa skuldabréf af einum tilteknum aðila. Þess er óskað að það væri upplýst betur. Sjálfsagt er mjög eðlileg skýring á þessu en þá væri betra að hún lægi fyrir.