Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 22:58:32 (1298)

1996-11-14 22:58:32# 121. lþ. 24.11 fundur 147. mál: #A Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda# (iðgjöld, stigaútreikningur, ávöxtun o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[22:58]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fyrir framan mig upplýsingar frá stjórn sjóðsins en þar segir að lífeyrissjóðirnir, þar á meðal Söfnunarsjóðurinn, samþykktu að taka þátt í viðbótarfjármögnun vegna Spalar í lok maí 1995. En á þeim tíma var búið að afgreiða breytinguna á lögunum sem samþykkt var vorið 1995.

Þessi viðbót er háð sömu skilyrðum og upphaflega heimildin en það helsta er að göngin hafi verið í rekstri í 2--3 mánuði og hafi verið tekin út tæknilega. Landsbankinn gekkst í ábyrgð fyrir þessum hluta. Ástæðan fyrir að þetta er sett inn í frv. er sú að aðrir lífeyrissjóðir geta gert þetta með einfaldri samþykkt og reglugerð en Söfnunarsjóðurinn þarf að fá lagaheimild hjá Alþingi til að geta gert sömu hlutina. En þar sem svo framorðið var að ekki var hægt að ná lagaheimild þegar til átti að taka var ákveðið að fara þá leið að Landsbankinn brúi þetta bil en sótt yrði um heimildina síðar. Hér er um að ræða kaup á bréfum eftir að búið er að gera göngin og að áliti stjórnar sjóðsins er um að ræða mjög góða fjárfestingu sem ætti að skila sér vel til sjóðsins.