Lífeyrissjóður bænda

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 23:09:15 (1302)

1996-11-14 23:09:15# 121. lþ. 24.12 fundur 118. mál: #A Lífeyrissjóður bænda# (kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs) frv., JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[23:09]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Við munum áreiðanlega virða það á betri veg að svör berist til nefndarinnar og er ekki hægt að ætlast til þess kannski að þau liggi fyrir fyrirvaralaust. En af þessu tilefni er líka ástæða að spyrja spurninga eins og þeirra: Samrýmist svona sérmeðhöndlun á lífeyrissjóði einnar starfsstéttar þeim almennu reglum sem gerðar eru til annarra? Við vorum hér að ræða um frv. hæstv. fjmrh. um samræmingu á skattlagningu á launaþáttinn, þ.e. tryggingagjald á laun, og hér var reynt eftir föngum að kenna sumum stjórnarliðum, sem lýstu fyrirvara um stuðning við það mál, að ekki væru rök fyrir því að mismuna atvinnugreinum með þeim hætti. Erum við hér að fást við svipað mál? Sitja ekki allir við sama borð? Er um að ræða mismunun þar sem hluti af útgjöldum eins lífeyrissjóðs er færður sérstaklega yfir á ríkissjóð eða neytendur í formi annarra gjalda? Reyndar minnir mig frá fyrri tíð að stuðningur ríkisins eða hins opinbera við Lífeyrissjóð bænda komi fram á fleiri liðum í fjárlögum og hafi gert áður. Það kemur þá í hlut efh.- og viðskn. að kanna hvort þessar tillögur geti talist eðlilegar út frá jafnræðisreglu gagnvart starfshópum almennt.