Nektardansstaðir

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 15:08:32 (1313)

1996-11-18 15:08:32# 121. lþ. 26.1 fundur 91#B nektardansstaðir# (óundirbúin fsp.), HG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:08]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Eins og mörgum mun kunnugt, ekki síst eftir sjónvarpsþátt í síðustu viku, er rekin í höfuðstað landsins og kannski víðar starfsemi sem hlýtur að vekja allmargar spurningar. Ég á við nektarsýningar sem stundaðar eru á veitingahúsum í borginni. Mér er sagt á þremur stöðum, formlega séð, þar sem konur, því ég hygg að það sé einkum kvenfólk sem á þarna hlut að máli, eru látnar dansa naktar fyrir framan þá sem kaupa sig inn á þessa staði og sýna sig í raun naktar. Ekki með neinum hömlum í þeim efnum, eins og sums staðar í löndum þar sem starfsemi af þessum toga fer fram. Þó eru settar einhverjar hömlur þar á. Mér finnst eðlilegt að spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hann telji eðlilegt að heimila nektarsýningar af þessum toga sem starfsemi í veitinga- og skemmtistöðum í borginni og þá jafnframt annars staðar á landinu. Ég vil gjarnan, virðulegur forseti, heyra álit hæstv. dómsmrh. á því hvort hann telji að þessi starfsemi falli undir ákvæði um list eða skilgreiningu listar en ekki klám og þar með undir 209. gr. almennra hegningarlaga ef hið síðara væri niðurstaða framkvæmdarvaldsins í þessum efnum. Ég býst við að mörgum leiki hugur á að heyra svör hæstv. ráðherra í þessum efnum og eðlilegt að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh.