Atvinnuleyfi fyrir nektardansara

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 15:16:34 (1318)

1996-11-18 15:16:34# 121. lþ. 26.1 fundur 92#B atvinnuleyfi fyrir nektardansara# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:16]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég verð að játa það að ég hef ekki mikla þekkingu á þessari starfsemi. Eftir því sem mér skilst þá mun vera um fólk að ræða sem telur sig listafólk. Nú er það ekki mitt að ákveða það hvað er list og hvað er ekki list, en listafólk þarf ekki atvinnuleyfi á Íslandi og þessar stúlkur eru ekki með atvinnuleyfi frá félmrn. Ef til þess kæmi að það væri úrskurðað mundi það gerast á vegum annars ráðuneytis en míns, það mundi væntanlega vera hæstv. menntmrh. sem ætti að úrskurða hverjir væru listamenn og hverjir ekki. Ef þarna teldust ekki listamenn á ferð, þá yrði viðkomandi að fá uppáskrift frá íslensku verkalýðsfélagi um að ekki fengjust Íslendingar til þessara starfa áður en til atvinnuleyfisveitinga kæmi. Ég á ekki von á því að til þess komi að ég fari að skipta mér af þessum stúlkum eða veita þeim atvinnueyfi. Það væri þá eingöngu að ég sem jafnréttisráðherra færi eitthvað að skipta mér af málinu í því falli að hér væri um starfsemi að ræða sem kynni að vera niðurlægjandi fyrir konur með einhverjum hætti eða niðurlægjandi fyrir viðkomandi konur ellegar þá að þær væru neyddar til þessara sýninga.

Að öðru leyti ætla ég ekki að skipta mér af þessari starfsemi.