Svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 15:20:35 (1320)

1996-11-18 15:20:35# 121. lþ. 26.92 fundur 101#B svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:20]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Hér áður var dagskrárliður sem var tekinn upp samkvæmt nýjum þingsköpum og gengur út á það að þingmenn geta lagt fyrir án undirbúnings fyrirspurnir til hæstv. ráðherra um einstök atriði. Þetta er mjög mikilvæg nýjung í þingsköpunum og hefur orðið til þess að skapa möguleika á snarpari skoðanaskiptum hér en oft er ella og er ástæða til þess að leggja á það áherslu að þessari nýjung verði við haldið.

Vandinn er hins vegar sá að hæstv. ráðherrar hafa stundum komist upp með það að svara engu í þessum fyrirspurnatímum og þeir hafa í raun og veru með vinnubrögðum sínum, áherslum og aðferðum haldið þannig á málum að þessi tími er að verða veikari og veikari þáttur í störfum þingsins. Ég tel að það hafi kastað tólfunum hér áðan þegar hæstv. menntmrh. ,,svaraði`` fyrirspurnum frá hv. 12. þm. Reykv. um Lánasjóð ísl. námsmanna, þar sem hæstv. ráðherra sagði í raun og veru við þingmanninn var: Þingmanninum kemur þetta ekkert við. Ég ætla engu að svara. Þinginu kemur þetta ekkert við. Þetta er ekki mál þingsins. Þessi dónaskapur í garð Alþingis er afskaplega alvarlegur og sláandi og maður hlýtur að velta því fyrir sér hvaða aðferðum er hægt að beita til að tryggja það að hæstv. ráðherrar komi fram við Alþingi samkvæmt þingsköpum, þ.e. að þeir svari þeim fyrirspurnum sem bornar eru fram.

Ég fer fram á það sem formaður míns þingflokks við hæstv. forseta Alþingis að hann velti því fyrir sér hvaða úrræðum er hægt að beita þá ráðherra sem hunsa þingsköpin með þeim hætti sem hæstv. menntmrh. gerði fyrr í dag.