Svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 15:31:52 (1326)

1996-11-18 15:31:52# 121. lþ. 26.92 fundur 101#B svör ráðherra við óundirbúnum fyrirspurnum# (um fundarstjórn), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[15:31]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þetta eru mjög gagnlegar umræður og nauðsynlegt að menn brjóti það til mergjar hvernig þessum fyrirspurnatíma á að vera háttað. Það er alveg ljóst að ráðherrar ráða sínum svörum og ég svaraði á þann veg sem ég taldi mér fært og tel mér fært að svara á þessari stundu og vísaði til ítarlegrar ræðu um þetta mál sem ég flutti á Alþingi 12. nóvember sl. Það hefur ekkert gerst af minni hálfu síðan sem er í frásögur færandi þannig að ég vísaði hv. þm. til þess. Ég tel að þetta séu fullnægjandi svör hér á hinu háa Alþingi þegar vísað er til umræðna í þinginu og svara ráðherra þar. Ég tel því með öllu ómaklegt að gagnrýna mig fyrir að hafa ekki svarað þessari spurningu.

Hitt er annað mál að ef menn vilja að þessar umræður séu þannig að unnt sé að svara spurningum eins og fram komu nákvæmlega hjá hv. þm., þá þarf tvímælalaust að undirbúa það fyrir fram til þess að ráðherrann geti svarað og hafi þær upplýsingar haldbærar sem hann getur lagt fram og staðið við því að ráðherrar eiga ekki að koma hér og svara fyrirspurnum þingmanna nema þeir geti staðið við það jafnt í þingsalnum sem utan hans og það séu réttar upplýsingar sem gefnar eru.

Ég vísa aftur til þess sem ég sagði í umræðum um þetta mál 12. nóvember. Það eru þau svör sem ég get gefið. Ég hafði ekki tíma til að endurtaka þá ræðu og ég vísaði hv. þm. til þess.