Stytting vinnutíma án lækkunar launa

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 16:08:11 (1334)

1996-11-18 16:08:11# 121. lþ. 26.13 fundur 4. mál: #A stytting vinnutíma án lækkunar launa# þál., Flm. SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:08]

Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil að það sé alveg á hreinu að hér er ekki tillaga um lagasetningu. Það er alveg skýrt. Það er afstaða okkar alþýðubandalagsmanna að það eigi ekki að skipa þessum málum með lögum. Hins vegar er það jafnframt afstaða okkar að Alþingi eigi að fjalla um mál af þessu tagi og þess vegna er tillagan sett svona fram. Hún er tiltölulega opin miðað við það sem venja er í svona málum hér. Satt að segja lágum við lengi yfir orðalagi þessarar tillögu áður en við lögðum hana inn, einmitt af þeirri ástæðu að við óttuðumst að þessi viðbára kæmi fram.

Um önnur atriði hefði ég satt að segja gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra segja aðeins frá því í þessari umræðu hvernig hann sér fyrir sér stöðuna varðandi þessa vinnutímatilskipun og þar með hlut stjórnvalda að þessu máli þannig að þau koma að því, svo undarlegt sem það nú er, hvort sem okkur líkar betur eða verr bæði mér og hæstv. ráðherra.