Stytting vinnutíma án lækkunar launa

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 16:11:51 (1338)

1996-11-18 16:11:51# 121. lþ. 26.13 fundur 4. mál: #A stytting vinnutíma án lækkunar launa# þál., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:11]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að heyra viðbrögð hæstv. félmrh. við þessu máli. Hann leiddi örlítið í tal umræðu um lögbindingu lágmarkslauna. Sá sem hér stendur hefur flutt slíkt mál og sagði um leið: Ef viðunandi laun nást í samningum, sem ég tel vera 80 þús. kr. á mánuði fyrir dagvinnu miðað við núverandi aðstæður, þá mun þetta frv. verða dregið af borðum þingmanna. Ég stend við það. En það er ástæða til að ræða þetta mál frekar þegar staðreyndin er sú að um 13 þúsund manns hafa í árslaun á bilinu frá 600 og upp í 720 þús. kr. fyrir fulla dagvinnu. Það er fyllsta ástæða til þess. Fólk er með frá 50 þús. kr. og upp í innan við 60 þús. kr. á mánuði. Þetta er með hreinum ólíkindum. Það er hægt að segja að það sé með ólíkindum að þetta eru minni árslaun en aukageta ýmissa sem sitja í stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og stofnana.