Stytting vinnutíma án lækkunar launa

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 16:20:45 (1346)

1996-11-18 16:20:45# 121. lþ. 26.13 fundur 4. mál: #A stytting vinnutíma án lækkunar launa# þál., GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:20]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar afstöðu hæstv. félmrh. að vera andsnúinn lögbindingu á styttingu vinnutímans því að slíkt eigi að semja um, vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann er tilbúinn að standa að slíkum samningum fyrir hönd ríkisstarfsmanna eða hvort hann sér ríkisstjórnina koma inn í slíka samninga á einhvern hátt fyrir hinn almenna vinnumarkað í komandi samningum. Ég spyr vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að þetta þjóðfélag komist út úr þeirri vinnuþrælkun sem hér ríkir og hefur verið í langan tíma. Þetta er mjög mikilvægt bæði vegna fjölskyldnanna í landinu og til að dreifa þeirri atvinnu sem til staðar er sem jafnast á milli fólks.

Hæstv. félmrh. virðist vera mér sammála í orði. En hvað er hann tilbúinn til að gera sem aðili framkvæmdarvaldsins til að þetta geti orðið að veruleika í komandi samningum?