Stytting vinnutíma án lækkunar launa

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 16:30:56 (1349)

1996-11-18 16:30:56# 121. lþ. 26.13 fundur 4. mál: #A stytting vinnutíma án lækkunar launa# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[16:30]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er svo sannarlega um þarft og gott mál að ræða sem við þingkonur Kvennalistans styðjum af heilum hug, svo sem vænta mátti, vegna þess að um nánast sama mál er að ræða og flutt var ítrekað á síðasta kjörtímabili undir forustu Önnu Ólafsdóttur Björnsson, hv. þáverandi þingkonu Kvennalistans í Reykjaneskjördæmi. Áður höfðu komið fram tillögur þessa efnis á Alþingi, ég held bæði frá þingmönnum Alþb. og frá þingmönnum Alþfl. þannig að ekki er um nýjung að ræða en góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Tillaga Kvennalistans var samþykkt vorið 1994 en að vísu nokkuð breytt. Tillagan hljóðaði svo í upphafi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir styttingu vinnuvikunnar með það að markmiði m.a. að skapa fleiri störf. Vinnuvika í dagvinnu verði stytt í 35 stundir í áföngum og án kjaraskerðingar. Haft verði samráð við aðila vinnumarkaðarins og jafnframt kannað hvort slík aðgerð geti verið liður í kjarasamningum.``

Þannig hljóðaði tillagan. Eftir umfjöllun í hv. félmn. varð samkomulag um breytingu á tillögunni þess efnis að gerð yrði skýrsla um þær aðgerðir sem gripið hefði verið til meðal Evrópuþjóða, einkum annarra norrænna ríkja, sem miðuðu að styttingu vinnutíma og fjölgun starfa. Sú skýrsla kom út á síðasta þingi, þ.e. fyrr á þessu ári. Hún er á þskj. 1133 á 120. löggjafarþingi. Ég heyrði reyndar ekki minnst á hana í máli hv. flm. eða málshefjanda né annarra og má vera að menn hafi ekki skoðað þessa skýrslu mikið. Hún kom út á miklum annatíma þegar þingi var um það bil að ljúka. Efni hennar kann að hafa farið fram hjá ýmsum hv. þingmönnum. En hún geymir nefnilega fróðlegar upplýsingar sem má styðjast við í því starfi sem gert er ráð fyrir í þeirri tillögu sem við nú ræðum.

Ég varð undrandi á að heyra andúð eða höfnun hæstv. ráðherra og fleiri alþingismanna á því að setja vinnutímalengd í löggjöf. Á bls. 8 í þessari skýrslu er sýnd tafla um skipulag vinnutíma í ýmsum löndum og verður ekki annað séð en vinnutíma sé skipað með löggjöf í allmörgum löndum ESB, EFTA og Norður-Ameríku þannig að engin nýjung er að setja í löggjöf ákvæði um lengd vinnutíma.

Eins og búast mátti við kemur fram nokkur varfærni í texta skýrslunnar og yfirleitt er ekki kveðið fast að orði. Í samantekt í niðurlagi skýrslunnar er sagt nauðsynlegt að fram fari umfangsmikil könnun á áhrifum vinnutímastyttingar á íslenskt þjóðfélag áður en hún verður framkvæmd. Mér þótti reyndar ákaflega vænt um að sjá þannig tekið til orða ,,áður en hún verður framkvæmd`` en ekki áður en hún yrði framkvæmd og ég hlýt að reikna með því að skýrsluhöfundar kunni til hlítar muninn á þessum sagnmyndum. Þar er reyndar líka um athyglisverða fullyrðingu að ræða í niðurlaginu þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Almennt er talið að vikuleg vinnutímastytting hafi í för með sér aukna framleiðni.`` Þetta er mikilvæg athugasemd og fullyrðing sem hlýtur að skipta máli þegar reynt er að sannfæra vinnukaupendur um ágæti þess og réttmæti að stytta vinnutímann.

Í skýrslunni kemur fram að á Norðurlöndum hefur stytting vinnutíma lengst af verið hluti af velferðarstefnu stjórnvalda en með vaxandi atvinnuleysi hefur meiri gaumur verið gefinn að því að nýta vinnutímastyttingu eða breytt fyrirkomulag á vinnutíma til að fjölga störfum. Annars staðar í Evrópu mun stytting vinnutíma vera tengd möguleikum á fjölgun starfa.

Í tillögu Kvennalistans var lögð áhersla á styttingu vinnutíma sem lið í því að fjölga störfum og draga á þann hátt úr atvinnuleysi, en í greinargerðinni var hins vegar ekki síður lögð áhersla á félagslega þáttinn. Langur vinnudagur Íslendinga er staðreynd, eins og hér hefur margsinnis verið tekið fram, og lengri en víðast hvar í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er verulegt áhyggjuefni. Það er ekki nokkurt einasta álitamál að þessi langi vinnudagur hefur veruleg áhrif á möguleika fólks til að njóta tómstunda og þá ekki síður á samverustundir fjölskyldunnar þar sem um fjölskyldufólk er að ræða. Því miður hafa þessir þættir allt of lítið verið kannaðir. Þó eru til kannanir sem sýna viðhorf Íslendinga til þessa mikla vinnuálags og vilja þeirra til breytinga og þá fyrst og fremst til að geta betur sinnt fjölskyldu og börnum og áhugamálum af ýmsu tagi. En meginástæða þess að fólk telur sig eiga erfitt með að minnka við sig vinnu er auðvitað fjárhagurinn og þess vegna er afar mikilvægt að stytting vinnutíma leiði ekki til kjaraskerðingar.

Í samantektinni í niðurlagi skýrslunnar, sem birt var í framhaldi af samþykkt tillögu Kvennalistans, segir að óvissuþættir um áhrif vinnutímastyttingar á atvinnustigið séu margir og áhrifin breytileg eftir aðstæðum á hverjum stað og hverju sinni. Því skiptir máli hvernig atvinnuástandið er og um hvaða atvinnu- og starfsgreinar er að ræða. Þannig þurfi að líta til reksturstíma, framlegðar og fleiri þátta en síðar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Flestar rannsóknir hafa sýnt að framleiðni á klukkustund eykst mest við vinnutímastyttingu ef vinnutíminn er langur fyrir, en fer minnkandi ef vinnutímastytting er gerð út frá styttri vinnutíma.``

Þetta er athyglisvert innlegg í umræðuna, þar sem yfirleitt er um langan vinnudag að ræða hér á landi og lengri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Við hljótum að leggja meiri áherslu á þennan þátt kjaramála hér á landi. Stytting vinnutíma hefur víða verið framkvæmd og Alþjóðavinnumálastofnunin hefur sýnt þessu máli mikinn áhuga en áhersla hefur verið lögð á að tengja vinnutímastyttingu aðstæðum í hverju landi, bæði með tilliti til atvinnustefnu og tækniþróunar og út frá félagslegum og efnahagslegum aðstæðum.

Þá hefur vaxandi áhersla verið lögð á sveigjanlegan vinnutíma og um það efni hefur Kvennalistinn reyndar einnig flutt þáltill. sem að vísu hlaut ekki náð fyrir augum þingsins.

Ég sé að tími minn er búinn, en um þetta mætti reyndar segja ýmislegt fleira. En ég vil aðeins endurtaka að við þingkonur Kvennalistans styðjum þessa tillögu af heilum hug.