Almannatryggingar

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 17:12:14 (1354)

1996-11-18 17:12:14# 121. lþ. 26.14 fundur 9. mál: #A almannatryggingar# (sálfræðiþjónusta) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:12]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Suðurl. fyrir að leggja fram þetta frv. sem gerir ráð fyrir að sérfræðiþjónusta til barna og unglinga utan sjúkrahúsa á sviði sálfræði- og félagsráðgjafar verði greidd af Tryggingastofnun samkvæmt gjaldskrá.

Ég veit ekki hvort hv. alþm. sem hafa verið að samþykkja hver grunnskólalögin á fætur öðrum þar sem alls staðar eru ákvæði um skólasálfræðinga gera sér grein fyrir hve framkvæmd þessarar þjónustu hefur verið ábótavant á undanförnum árum, hve mörg byggðarlög, þar á meðal hér á suðvesturhorninu, hafa haft mjög takmarkaðan aðgang að slíkum sérfræðingum á undanförnum árum. Börn sem sum hver hafa haft ríka þörf fyrir aðstoð sálfræðings hafa oft og tíðum verið á biðlistum skólasálfræðinga árum saman án þess að fá nokkra úrlausn. Ekki er hægt að ráðleggja efnalitlum foreldrum að leita til sjálfstætt starfandi sérfræðinga vegna mikils kostnaðar sem hefur ekki fengist endurgreiddur. Auk þess hefur meðferð hjá skólasálfræðingum oft verið mjög endaslepp, takmarkast við mjög fá viðtöl og beinst að greiningu á námserfiðleikum. Kerfið afsakar sig með löngum biðlistum og að ekki sé hægt að taka erfið sálgæslutilfelli til raunverulegrar meðferðar. Ég veit t.d. til þess að börnum hefur ekki verið boðið upp á meðferð sálfræðings vegna fráfalls foreldis eða erfiðra skilnaðarmála.

Þegar rekstur grunnskóla hefur verið færður til sveitarfélaga vona margir að þessari viðvarandi sálfræðiþjónustukreppu muni nú linna. Það mun samt ekki breyta því að áfram munu koma upp tilfelli sem eru þess eðlis að þörf verður á meðferð, í sumum tilfellum langvarandi hjá börnum og unglingum og stundum mun meinið vart verða upprætt nema öll fjölskyldan verði tekin í meðferð. Það á ekki hvað síst við þegar börn hafa átt við langvarandi líkamleg veikindi að stríða sem hafa lagst þungt á alla fjölskylduna. Eins þegar börn eiga í hlut sem hafa lent í fíkniefnavanda en fátt leggst eins þungt á fjölskyldulífið og slíkt heimilisböl sem er vissulega þyngra en tárum taki og tekur langan tíma að hjálpa fjölskyldum á réttan kjöl sem hafa lent í slíkum hörmungum þótt slík hjálp væri í boði.

Hæstv. forseti. Ég vona að það frv. sem hér er til umræðu fái skjóta og góða meðferð í hv. nefnd og verði sem fyrst samþykkt á hinu háa Alþingi því um mjög brýnt er mál að ræða.