Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 17:16:25 (1355)

1996-11-18 17:16:25# 121. lþ. 26.15 fundur 10. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., ISigm
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:16]

Ingibjörg Sigmundsdóttir:

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um félagslega aðstoð sem er á þskj. 10. Flutningsmaður er Margrét Frímannsdóttir.

Eins og kemur fram í greinargerð með frv. eru í gildandi lögum um félagslega aðstoð ákvæði þess efnis að maki eigi rétt á bótum fyrir umönnun elli- og örorkulífeyrisþega í heimahúsi. Það er alkunna að það er ekki aðeins maki lífeyrisþega sem annast þá í heimahúsum. Hópurinn er töluvert stærri enda er maki í mörgum tilfellum ekki til staðar eða getur af einhverjum orsökum ekki veitt þessa aðstoð. Þar sem þannig er ástatt er algengast að systkini, börn eða tengdabörn veiti þessa umönnun. Í þessum hópi eru einnig foreldrar sem annast uppkomin börn sín en umönnunarbætur vegna barna falla niður við 16 ára aldur.

Með þessu frv. er lögð til sú breyting að ekki einungis maki hafi rétt til bóta heldur að hver sá sem heldur heimili með eða annast lífeyrisþegann eigi rétt á greiðslu fyrir umönnun, þó háð því skilyrði að viðkomandi geti ekki eða takmarkað vegna umönnunarstarfa stundað vinnu utan heimilis.

Það hefur lengi verið yfirlýst stefna stjórnvalda að stefnt skuli að því að aldraðir og öryrkjar geti dvalist sem lengst í heimahúsum og öll getum við sjálfsagt verið sammála um að það sé allt í senn hagkvæmasta, besta og manneskjulegasta leiðin varðandi aðbúnað þessa hóps þjóðfélagsþegna.

Þá hefur sífelldur samdráttur á sjúkrahúsum og fækkun sjúkrarúma aukið mjög þörfina fyrir að rýmkuð verði gildandi lög þannig að fleiri njóti umönnunarbóta en einungis maki. Fjöldi lífeyrisþega, sem þarfnast mikillar umönnunar, dvelst í heimahúsum. Sem dæmi má taka að á sl. ári var félagsleg heimilisþjónusta veitt á 3.355 heimilum í Reykjavík og heimahjúkrun veitt 1.450 sjúklingum. Í Kópavogi fengu 278 heimili heimilisþjónustu auk 332 einstaklinga heimilishjúkrun. Í Hafnarfirði eru heimilin eilítið fleiri en í Kópavogi og á Selfossi fengu 117 heimili félagslega þjónustu. Þeir eru þó mun fleiri sem veldu þann kost að dveljast heima ef þess væri kostur. Greiðsla umönnunarlauna til fleiri en maka mundi breyta þar miklu um.

Þá vil ég, með leyfi forseta, vitna beint í greinargerðina sem fylgir með frv. en þar stendur:

,,Munur á lífskjörum einstaklinga og fjölskyldna í þjóðfélaginu er mikill. Sumir hafa rúmar ráðstöfunartekjur og mikinn tíma fyrir fjölskylduna á meðan stór hópur þarf að vinna langan vinnudag en býr engu að síður við þröngan fjárhag. Vegna bágra kjara er því margri fjölskyldunni ókleift að annast lífeyrisþega inni á heimili.``

Margir aðstandendur lífeyrisþega þurfa að leita eftir félagslegri aðstoð sveitarfélaga ef aðstæður eru erfiðar og reynist það mörgum þung spor. Hefur þessum einstaklingum fjölgað verulega á undanförnum árum. Ef þetta frv. verður að lögum þýðir það að aðstandendur lífeyrisþega eiga rétt á launum fyrir umönnunarstörf í heimahúsi, ekki einungis maki lífeyrisþega eins og nú er heldur foreldrar, börn, tengdabörn og aðrir þeir sem halda heimili með honum og veita þá hjúkrun og aðra umönnun sem viðkomandi þarfnast. Þetta mál hefur lengi verið baráttumál Öryrkjabandalagsins og á síðasta aðalfundi þess var eftirfarandi samþykkt gerð, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn 12. október 1996, skorar á Alþingi að samþykkja fram komið lagafrv. um umönnunarlaun. Nauðsyn slíkra umönnunarlauna er ótvíræð og má benda á að ákvæði þess efnis var í stjfrv. fyrir nokkrum árum en frv. fékk ekki afgreiðslu. Til framtíðar litið stuðlar þetta fyrirkomulag að aukinni heill fjölmargra sem þannig geta dvalið lengur á heimilum sínum, svo og að umtalsverðum sparnaði í heilbrigðiskerfinu þar sem umönnunarlaun eru svo miklu lægri en heildarkostnaður að hverju hjúkrunarrými.``

Með þessari samþykkt tekur Öryrkjabandalag Íslands undir það sjónarmið að greiða skuli laun í stað bóta fyrir umönnun elli- og örorkulífeyrisþega. Einnig að þessi störf skulu metin til jafns á við umönnunarstörf á öldrunarstofnunum.

Virðulegi forseti. Frv. líkt því sem hér er til umræðu hefur verið flutt, sbr. þskj. 81. Sá munur er þó á þessum frumvörpum að hér er gert ráð fyrir að greidd séu laun fyrir umönnun elli- og örorkulífeyrisþega í stað bóta. Hér er heldur ekki gert ráð fyrir að greiðsla verði að hámarki 50.212 kr. á mánuði líkt og gert er í hinu frv. Þess í stað er lagt til að fram fari mat á hjúkrunarþyngd þess sem í hlut á líkt og gert er á öldrunarstofnunum. Hér er lagt til að komið verði á samræmdu mati á heilsufari og aðbúnaði lífeyrisþega í heimahúsi sem gæti gefið raunsanna mynd af þörf á hjúkrun og annarri aðhlynningu og það mat verði lagt til grundvallar þegar launagreiðslur fyrir umönnunina verða ákveðnar.

Virðulegi forseti. Fyrir löngu er orðið tímabært að störf þeirra sem annast elli- og örorkulífeyrisþega séu metin að verðleikum og er mikið réttlætismál. Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hæstv. félmn.