Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 17:23:22 (1356)

1996-11-18 17:23:22# 121. lþ. 26.15 fundur 10. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:23]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er um mjög brýnt og þarft mál að ræða og ég þakka hv. 5. þm. Suðurl. fyrir framsöguræðu hennar og raunar við ræðu hennar líka fyrir síðasta þingmáli sem ég lét reyndar undir höfuð leggjast að koma og tala í en þar var líka um mjög þarft mál að ræða.

Vafalaust þekkja margir hv. þm. til heimila og fjölskyldna sem búa við þær aðstæður um lengri eða skemmri tíma að bera ábyrgð á umönnun aðstandenda á ýmsum aldri og af ýmsum ástæðum. Við þekkjum það að áherslan hefur verið að færast í þá átt að auka verulega heimahjúkrun og aðstoð við þá sem þurfa umönnunar við í heimahúsum og aðstoð við þá sem veita slíka umönnun. En þá aðstoð þarf að bæta verulega og efla og um það fjallar frv., þ.e. að hluta til og eflaust að þeim hluta sem hægt er að taka á í lögum.

Frv. tekur á mjög mikilvægum þætti en fleira þarf að koma til og ég hlýt að nefna það hér. Ég vil sérstaklega nefna möguleika á hvíldarinnlögn í eina til sex vikur og ég vil líka nefna aðstoð við gæslu í eina og eina kvöldstund um helgar eða aðra daga. Ekki eru allir svo vel settir að geta skipt með sér tíma þannig að fólk geti nánast ekki leyft sér að bregða sér í leikhús eða kvikmyndahús. Margir verða ákaflega bundnir yfir öldruðu og/eða heilabiluðu fólki eða einstaklingum á heimili og þeir þurfa að eiga möguleika á hvíld um skamman eða lengri tíma öðru hverju. Í þessu efni eru mjög fáir kostir og sem dæmi má nefna að mér er kunnugt um að í Reykjavík er t.d. aðeins eitt skammtímapláss á Skjóli, þ.e. pláss fyrir hvíldarinnlögn sem mér finnst nú betra orð yfir þetta. Á öldrunardeild Ríkisspítalanna í Hátúni eru tvö slík, eitt fyrir konur og eitt fyrir karla. Það þarf aukna afleysingamöguleika því að margir vilja gjarnan taka aðstandendur inn á heimili sín og veita þeim þá þjónustu og þá umönnun sem þeir þurfa á að halda við þessar aðstæður en þeir eru kannski ekki tilbúnir að binda sig svo gersamlega að þeir geti varla um frjálst höfuð strokið. Þá er ég sérstaklega að hugsa um heilabilaða einstaklinga sem þurfa mjög mikla umönnun.

Eins og við vitum öll þarf miklu meira hjúkrunarrými og það þarf sérhæfðar einingar fyrir heilabilað fólk. En það er ekki svo að það dragi neitt úr mikilvægi þess sem tekið er á í frv. sem ég styð og tek undir af heilum hug.