Félagsleg aðstoð

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 17:27:53 (1357)

1996-11-18 17:27:53# 121. lþ. 26.15 fundur 10. mál: #A félagsleg aðstoð# (umönnunarbætur) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:27]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Aðeins til að taka undir meginefni þessa frv. sem hér er til umræðu þá er þetta mál af sama toga og hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir flutti í síðustu viku eða vikunni þar áður um félagslega aðstoð og um umönnunarbætur. Þetta er því enn eitt málið af sama toga sem ég held að ástæða sé til þess að fólk skoði betur hvernig er rétt að setja mál af sama toga í einn farveg. Ég fagna þessu frv. eins og ég fagnaði tillögu hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur þar sem er talað um 5. gr. laganna á nákvæmlega sama máta, hvort tveggja frv. til laga, þar sem segir, með leyfi forseta, eftirfarandi:

,,Maki eða sá sem heldur heimili með og annast elli- eða örorkulífeyrisþega og getur af þeim sökum ekki stundað nema takmarkaða vinnu utan heimilis á rétt á umönnunarbótum sem nemi allt að 50.212 kr. á mánuði. Bæturnar eru heimildarbætur og því háðar öðrum tekjum bótaþega.``

Þessi mál eru af nákvæmlega sama toga. Þetta frv. sem er 81. mál, sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir flutti, er endurflutt frá fyrra ári og ég ítreka að öll þessi mál sem við höfum verið að ræða að undanförnu tengjast afkomu fjölskyldnanna og afkomumöguleikum í víðasta samhengi. Þess vegna vil ég taka undir þessi frumvörp, bæði tvö. Í frv. hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur stendur að þessi lagabreyting sé samhljóða grein í frv. til almannatryggingalaga sem Guðmundur Bjarnason, þáv. heilbrrh., núv. hæstv. umhvrh., lagði fram til kynningar vorið 1991. Nú hlýtur að vera kærkomið tækifæri fyrir Framsfl. að styðja þessi mál. Það liggur í augum uppi að þetta er eitthvað sem fjölmargir eru sammála um. Þess vegna lýsi ég eftir hvort einhver framsóknarmaður er hér til að svara fyrir það frv., sem ég vitnaði til, og vill kannski láta einhver orð falla um þessi mál sem falla svo vel að fram settum hugmyndum framsóknarmanna um fjölskylduna og manneskjuna í fyrirrúmi.