Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 17:53:57 (1362)

1996-11-18 17:53:57# 121. lþ. 26.16 fundur 44. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[17:53]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Efnislega er ég að mörgu leyti sammála hv. þm. Sú nefnd sem hefur það verkefni að fylgjast með þróun á þessu sviði mun vitaskuld taka það frv. sem hér liggur fyrir í þingskjali til skoðunar. Það eru hins vegar margar aðrar breytingar sem ég tel að nauðsynlegt sé að gera. Það hefur komið í ljós eftir að lögin voru á sínum tíma samþykkt í þinginu fyrir tæpu ári að nauðsynlegt er að gera ýmsar breytingar og það mun nefndin einnig skoða. En ég hygg þó að menn séu almennt sammála því að það ber að koma í veg fyrir að erlend fjárfesting í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum geti leitt til þess að þeir aðilar sem hafa nýtingarréttinn á fiskveiðiheimildunum, að þau fyrirtæki sem þann rétt hafa, lendi í höndunum á erlendum aðilum.