Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 18. nóvember 1996, kl. 18:06:22 (1366)

1996-11-18 18:06:22# 121. lþ. 26.16 fundur 44. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur

[18:06]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get að mörgu leyti verið sammála hv. þm. um það að með því að hleypa erlendum aðilum inn í íslenskan sjávarútveg mundum við geta bætt markaðsstöðu okkar og hugsanlega aukið þekkingu á framleiðslu sjávarafurða á Íslandi. Að því leytinu til er ég alveg sammála. Það sem ég er hræddur um er ef við færum að heimila erlenda fjárfestingu og það 100% í einum þætti sjávarútvegsfyrirtækja í dag þá yrði það til þess að stöðva þá þróun sem er á hraðri siglingu að fyrirtæki sameini ýmsar greinar sjávarútvegsframleiðslunnar innan eins fyrirtækis og styrki þannig undirstöðuna. Ég þykist sjá það fyrir að ef það gerðist þá mundu þessi stóru fyrirtæki, sem núna eru mjög stöðug og öflug, kljúfa fiskvinnsluna út úr fyrirtækinu og stofna sérstakt fyrirtæki um það til þess hugsanlega að ná inn erlendri fjárfestingu og það mundi veikja heildina. Þess vegna tel ég réttara að fara þá leið að heimila erlendum aðilum að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum með fjölþætta vinnslu og það sé óháð því hvort fyrirtæki séu með útgerð eða fiskvinnslu eða útgerð og fiskvinnslu saman. Það er eingöngu af þessum ástæðum sem ég óttast að þetta geti stöðvað mjög hagkvæma þróun sem er í dag og tefji þá að við getum komið að því áhugamáli, sem er okkar beggja að ég veit, okkar hv. þm. Ágústar Einarssonar, að erlendir aðilar fái heimildir til þess að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi í heild sinni.