Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 13:37:49 (1368)

1996-11-19 13:37:49# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[13:37]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil fara fram á að fá að mæla fyrir tveimur frv. samtímis, þ.e. --- um atvinnuleysistryggingar og og vinnumarkaðsaðgerðir.

(Forseti (RA): Komið hefur fram ósk um að 7. og 8. dagskrármálin verði rædd sameiginlega. En eins og þingsköp mæla fyrir um þá nægir að einungis einn alþingismaður andmæli því. Ég held að það þurfi engin ræðuhöld út af því, ég vildi bara fá á hreint hvort því er andmælt eða ekki. Ef einhver óskar eftir að rökstyðja mál sitt getur hann gert það. (RG: Við andmælum því að taka þessi mál saman.) Þessari ósk er andmælt og verður þá mælt fyrir 7. dagskrármálinu um atvinnuleysistryggingar.)

Herra forseti. Hér eru á dagskrá tvö mál sem eru ákaflega tengd. Þau eru byggð á starfi nefndar sem var skipuð sumarið 1995. Mér hefði þótt eðlilegra að fá að mæla fyrir þeim saman en geri svo sem enga athugasemd við það að þau séu sundur skilin.

Frv. á þskj. 188 um atvinnuleysistryggingar er hér til meðferðar. Mér finnst rétt að fara nokkrum orðum fyrst um eðli atvinnuleysisbóta. Ég tel að þær séu nauðsynlegt öryggisnet samfélagsins fyrir þá sem af einhverjum ástæðum hafa misst atvinnu sína eða hafa ekki fengið vinnu eða hafa hana svo litla að hún nægir þeim ekki til lágmarksframfærslu en eru að leita sér að vinnu, þ.e. vinnufærir einstaklingar sem vilja vinna en hafa ekki vinnu. Það er alveg tvímælalaus samfélagsleg skylda að veita einstaklingunum aðstoð í slíkum tilfellum. Atvinnuleysi er mikið böl, það er sálardrepandi og skaðar sjálfsvirðingu manna og ógnar lífshamingju viðkomandi. Atvinnuleysi var óþekkt hér um margra ára skeið eða nær óþekkt þangað til á þessum áratug. Það var allt að 7% á fyrstu mánuðum ársins 1995 en sem betur fer fer það minnkandi og hefur verið undanfarið rúm 3% og er í október 3,7%. En það er orðið allt annað viðhorf en þegar nefndin tók til starfa. Þrátt fyrir að atvinnuleysi sé ekki meira en þetta er það of mikið og við megum alls ekki sætta okkur við það. Það er einboðið að reyna að vinna gegn því eins og mögulegt er. Þessi frumvarpssmíð er byggð á því að reyna að koma betra skipulagi á vinnumál á Íslandi og jafnframt að hafa betra skikk á atvinnuleysistryggingum.

Ég skipaði nefnd sumarið 1995 og í henni var Hervar Gunnarsson, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Jón H. Magnússon, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, Jón Rúnar Pálsson, tilnefndur af Vinnumálasambandinu og Nikulás Einarsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Einnig áttu sæti í nefndinni alþingismennirnir Ögmundur Jónasson og Einar Oddur Kristjánsson. Formaður nefndarinnar var Hjálmar Árnason alþingismaður. Nefndin lauk störfum 21. mars 1996. Samhliða gerð þessa frumvarps vann nefndin að samningu frumvarps til laga um vinnumarkaðsaðgerðir þar sem gert er ráð fyrir nýskipan í skipulagi og framkvæmd vinnumiðlunar hér á landi. Nefndin stóð einhuga að baki frumvarpinu um vinnumarkaðsaðgerðir en ágreiningur var í nefndinni um þetta frumvarp og urðu lyktir þær að Hervar Gunnarsson og Ögmundur Jónasson gerðu fyrirvara um frv. um atvinnuleysistryggingar, þ.e. frv. sem hér er á dagskrá.

Meiri hlutinn skilaði áliti til mín. Þegar ég fór að athuga frv. fannst mér í mörgum tilfellum að þeir félagar, hv. þm. Ögmundur Jónasson og Hervar Gunnarsson, varaforseti ASÍ, hefðu haft mikið til síns máls og breytti frumvarpsdrögum meiri hlutans í mörgum atriðum og reyndar flestum atriðum sem þeir höfðu skilað athugasemdum við í átt til þess sem minni hluti nefndarinnar hafði lagt til.

Stofninn að þessu frv. er náttúrlega þau lög sem við búum við. Þó er hér um nokkrar breytingar að ræða. Rétt er að taka það fram varðandi sjálfstætt starfandi atvinnurekendur, þ.e. bændur, smábátasjómenn og vörubílstjóra, að í ráði er að flytja sérstakt frv. um atvinnuleysistryggingar þeirra. Það frv. er í smíðum í félmrn. og er að því komið að fá á því tryggingafræðilega úttekt. Þar er hugmyndin að setja á stofn sérstakan sjóð sem annist atvinnuleysisbótagreiðslur eða tryggingasjóð einyrkja eins og við höfum kosið að kalla hann sem sjái um málefni þessara stétta.

Eins og ég sagði áðan eru meginatriði þessa frv. byggð á gildandi lögum. Helstu breytingarnar frá þeim eru að rétt til bóta hafa menn á aldrinum 18 til 70 ára í stað frá 16 ára eins og í gildandi lögum. Það þykir æskilegt að ungmenni stundi nám á þessum aldri en þó er heimilt fyrir stjórn sjóðsins að veita 16 til 18 ára bótarétt ef sérstaklega stendur á. Ég vænti þess að það verði gert. Það yrði hlutverk stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að forma reglur sem ráðherra síðan mundi staðfesta. Í þessum tilfellum væri t.d. hægt að láta sér detta í hug að ef viðkomandi hefði stofnað heimili eða gætu ekki stundað nám af einhverjum orsökum o.s.frv.

[13:45]

Bótaréttur hefst samkvæmt frv. tveim vikum frá missi vinnu í staðinn fyrir, ég held, að það séu þrír dagar eins og nú er. En bætur greiðast frá því að vinna tapast. Þetta atriði þarfnast ef til vill nokkurrar skoðunar. Það eru mörg álitamál í þessu og ég vænti þess að hv. félmn. taki þau til athugunar og ef henni sýnist svo er mér ekki sárt um þótt einhverjum atriðum verði breytt og þetta er eitt af þeim sem eru tvær hliðar á.

Í frv. er gert ráð fyrir að menn haldi bótarétti í tvö ár ef þeir fara í nám eða þurfa að vinna heima af einhverjum ástæðum eða lendi í fangelsi eða standi í miklum barneignum. Það varðar missi bóta í 55 daga ef maður segir starfi lausu án gildra ástæðna eða missir vinnu af orsökum sem hann á sjálfur sök á. Þarna er um annað álitamál að ræða. Meiri hluti nefndarinnar lagði til að missir bóta yrði í 72 daga en minni hlutinn lagði til að það yrðu 40 dagar eins og nú er. Elli- og örorkulífeyrir og örorkustyrkur svo og lífeyrir úr almennum frjálsum lífeyrissjóðum skal koma til frádráttar atvinnuleysistryggingabótum.

Bótatímabil skal vera að hámarki fimm ár. Nýtt bótatímabil getur hafist að ári liðnu enda hafi viðkomandi unnið sex mánuði á bótalausa tímabilinu. Hér er um breytingu að ræða frá gildandi lögum sem reyndar eru frábrugðin lögum annars staðar þar sem ég þekki til því samkvæmt gildandi lögum má segja með nokkrum rétti að menn geti verið á atvinnuleysisbótum frá sextán ára til sjötugs. Það er náttúrlega ekki skynsamlegt fyrirkomulag. Það er eðlilegt að einhver hvatning sé til einstaklinganna að vinna fremur en vera á bótum.

Mér er það ljóst að það kann að valda sveitarfélögunum einhverjum viðbótarkostnaði ef eitthvað af þessu fólki fengi ekki vinnu þegar það missti bæturnar, en ég vænti þess að það verði ekki í stórum stíl.

Færeyingar hafa mikla reynslu af atvinnuleysi. Þar er reglan sú að bótaréttur fellur niður að 38 mánuðum liðnum. Reynslan þar er sú að helmingurinn fær vinnu strax en helmingur þeirra sem missa bæturnar lendir á félagslegu framfæri. Ég vil taka fram að fáir einstaklingar hafa verið lengur á bótum hér en í fimm ár og það eru reyndar um 900 eða voru um síðustu mánaðamót um 900 einstaklingar sem voru búnir að vera eitt ár eða lengur á atvinnuleysisbótum.

Það getur valdið missi bótaréttar að neita að taka vinnu og að neita að taka þátt í gerð starfsáætlunar. Andinn í þessum frv. er að reyna að fá hina atvinnulausu til að vera virkir í þjóðfélaginu, koðna ekki niður í atvinnuleysi og það eru tilraunir gerðar til að reyna að rjúfa þann vítahring sem fólk kemst í í langvarandi atvinnuleysi. Það er mikið upp úr því lagt að viðkomandi reyni að fá sér vinnu eða þjálfi sig til að verða hæfari á vinnumarkaði. Þeir sem taka þátt í starfsleitaráætlun þurfa ekki að skrá sig vikulega og stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs getur einnig heimilað að á afmörkuðum svæðum fari skráning fram öðruvísi en vikulega.

Atvinnuleysistryggingasjóður lýtur níu manna stjórn. Tveir eru tilnefndir af ASÍ, tveir tilnefndir af VSÍ, einn tilnefndur af BSRB, einn af BHM, einn af Vinnumálasambandinu, einn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og formaður verður skipaður af félmrh. samkvæmt frv. Þetta er breyting því að í þessari stjórn er ekki ætlast til að þingkjörnir fulltrúar sitji. Þetta er nokkuð stór stjórn en gert er ráð fyrir að þriggja manna framkvæmdaráð annist afgreiðslu mála sem ekki fela í sér stefnubreytingu.

Þá er að geta þess að þeir sem eru 16 til 18 ára við gildistöku laga þessara og á atvinnuleysisbótum missa ekki bótarétt og þeir sem hafa verið á bótum frá 1. júlí 1994 og eru samfellt á bótum munu missa þær 1. júlí 1999.

Frv. byggir á þeirri meginreglu að menn verði að vera reiðubúnir að ráða sig í fullt starf til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Hins vegar er úthlutunarnefnd veitt heimild til að víkja frá þessu ef hinum atvinnulausa er ókleift að ráða sig í fullt starf eða ef hann hefur verið í hlutastarfi áður en hann varð atvinnulaus.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. eiga menn ekki að geta notið hærri bóta en sem svarar því starfshlutfalli sem þeir eru reiðubúnir að ráða sig í. Samkvæmt 4. mgr. 13. gr. frv. eiga þeir sem úthlutunarnefnd heimilar að ráða sig í hlutastarf ekki að geta notið bóta með launum í lengri tíma en 6 mánuði.

Herra forseti. Ég vænti þess að um frv. geti tekist sæmileg sátt. Ég tel að ég hafi reynt að gæta allra sjónarmiða nefndarinnar og þræða milliveg sums staðar. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. félmn. og 2. umr. Ég tel að hér sé um merkilegt mál að ræða sem þurfi að ná fram að ganga en undirstrika það jafnframt að frv. um vinnumarkaðsaðgerðir sem hér er líka á dagskrá verður að vera samferða hinu því að annað frv. dugir ekki, það þarf að afgreiða þau bæði.