Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 14:22:33 (1375)

1996-11-19 14:22:33# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:22]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Þar sem ég veit að hv. þm. er upptekinn annars staðar vil ég nota þetta tækifæri og koma upp í andsvar þó ég hefði ef til vill áhuga á því að fara lengri og fleiri orðum um ræðu hans. Ég vil þakka honum fyrir jákvæðan tón og ég tel að margt af því sem hann sagði sé þess eðlis að eðlilegt sé að hv. félmn. líti á þetta. Það eru álitamál um marga þessa hluti. Þetta eru viðkvæmir hlutir og það er allt fullt af álitamálum í þessu. Ég er ekkert að halda því fram að endilega sé í þessu frv. alls staðar stórisannleikur. Það er ekki hugmyndin að fara að flytja fólk nauðungarflutningum með því skipulagi sem hér er lagt til.

Mér fannst út af fyrir sig söguskýringin ekki eiga alveg við hjá hv. þm. vegna þess að þetta er breytt frv. frá því sem meiri hluti nefndarinnar gekk frá því. Þau atriði sem voru listuð upp eftir þeim minnihlutamönnum og ég fékk í hendur eru hér um bil öll komin inn í þetta frv. Einstöku sinnum var farinn einhver millivegur.

Mér finnst ekki eðlilegt að menn hækki í launum við að fara á atvinnuleysisbætur. Það finnst mér ekki eðlilegt. Raunar finnst mér vanta, í núverandi ástandi, launalega hvatningu eða tekjulega hvatningu í sumum tilfellum til að menn fái sér vinnu. Í mörgum tilfellum koma menn betur út með því að vera á atvinnuleysisbótum.

Varðandi lífeyrisþegana þá blæðir mér það í augum að Atvinnuleysistryggingasjóður sé að borga fjórum flugmönnum og tveimur flugumferðarstjórum atvinnuleysisbætur, sem eru eftirlaunamenn. Þetta finnst mér ekki gott skipulag. Ég er sammála því að það er mjög nauðsynlegt að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs geri uppkast að reglum sem hér er getið um í frv. og ég mun ganga eftir því að það verði gert. Ég tel hins vegar að það sé ekki skynsamlegt (Forseti hringir.) að freista nemenda til að hætta námi á miðri námsönn.