Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 14:25:10 (1376)

1996-11-19 14:25:10# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:25]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hversu réttlátt mönnum finnst það að vegna fjögurra flugstjóra sem taki atvinnuleysisbætur megi atvinnulaust fólk ekki eiga bankabók og taka út af henni. Það var það sem ég var að vekja athygli á. Og ástæðan fyrir söguskýringunni var sú að þar sem á annað borð er verið að vitna í efnisatriði sem komu frá minni hluta nefndarinar þá þarf að skýra hvernig þau urðu til, þ.e. að þau efnisatriði voru til orðin vegna málamiðlunar. Hitt vil ég taka undir að það hefur verið tekið tillit til þeirra atriða að verulegu leyti enda hef ég lagt áherslu á að ég tel margt í þessu frv. vera mjög jákvætt og til bóta. Hitt finnst mér algerlega óaðgengilegt að lægsta fólkið verði lækkað. Að lægsta fólkinu verði refsað. Að þeir sem eru hálaunamenn eða í hærri kantinum og missa atvinnu sína fái fullar atvinnuleysisbætur en láglaunafólkinu verði sérstaklega refsað. Staðreyndin er sú, eins og reyndar kom fram í máli hæstv. félmrh. og þar er ég honum algerlega sammála, að verulegur þáttur launa hjá t.d. fiskverkunarfólki er bónusinn, launagreiðslur ofan á dagvinnutaxtann. Ég er sammála honum þegar hann segir að það eigi að vera kappsmál fyrir samfélagið allt að færa bónus og þessar aukagreiðslur, þessi viðbótarlaun eins og er í tísku að tala um núna, inn í launataxtana. En það að refsa lægst launaða fólkinu með því að skerða hjá því atvinnuleysisbætur er náttúrlega fullkomið siðleysi og algerlega óaðgengilegt.