Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 14:27:08 (1377)

1996-11-19 14:27:08# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:27]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Kannski erum við að deila um ónauðsynlegan hlut. Ég ætla nefnilega rétt að vona að niðurstaða næstu kjarasamninga sem verða gerðir áður en þessi lög taka gildi, verði að launastrúktúrinn verði lagaður þannig að dæmi sem hv. þm. nefndi sé ekki hægt að búa til. Ég ætla að vona að grunnkaupshækkun verði það mikil að svona atriði þurfi ekki að koma til. Ég vil undirstrika það sem ég hef verið að segja undanfarna daga að ég tel að það sé mjög brýnt þjóðfélagslega að laga launastrúktúrinn í landinu. Ég tel að það þurfi endilega kjarabætur og kaupmáttaraukningu. En ég tel að það sé óháð því að grunnkaupið eigi að hækka á kostnað aukagreiðslnanna.