Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 14:50:39 (1380)

1996-11-19 14:50:39# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[14:50]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða stórt og mikið mál sem snertir stóran hóp fólks í samfélaginu og er ástæða til að taka undir það með hæstv. félmrh. að við eigum að velta fyrir okkur atvinnuleysinu og orsökum þess og afleiðingum við umræður eins og þessar. Ég vil í því sambandi benda á það sem stendur í frv. til fjárlaga þar sem menn hafa á undanförnum árum verið nokkuð að velta fyrir sér orsökum atvinnuleysis. Ég vil taka undir það sem þar kemur fram að ég óttast mjög að það stig atvinnuleysis sem við erum að komast á núna, þ.e. í kringum 4%, sé það sem við munum horfa upp á á næstu árum. Það byggist á því að nútímahagfræði segir okkur að það er alltaf töluverður hópur fólks sem er á hreyfingu á vinnumarkaði, er að leita sér að störfum, er að koma á vinnumarkað, skipta um vinnu og því um líkt, fyrir utan þann hóp sem af ýmsum ástæum lendir í vandræðum. Það eru gjaldþrot fyrirtækja, það eru uppsagnir, það getur verið tímabundinn hráefnisskortur, eins og við þekkjum hér á landi, og fleira og fleira. Það eru uppi kenningar um að það atvinnuleysi sem við horfum nú upp á sé nokkurn veginn það sem við megum eiga von á. Menn þora að sjálfsögðu ekki að tala um ,,eðlilegt`` atvinnuleysi, enda eigum við aldrei að sætta okkur við það að atvinnuleysi sé eðlilegt ástand, heldur virðist þetta vera orðið eðli vinnumarkaðarins. Það þýðir að það öryggisnet sem á að umkringja atvinnulausa og tryggja þeim afkomu þarf að vera þétt og gott og vera þannig úr garði gert að það hvetji fólk til að skoða líf sitt, leita sér menntunar, leita að nýjum möguleikum og að reyna á sem allra mannúðlegastan hátt að koma í veg fyrir að þetta kerfi sé misnotað.

Ég vil taka undir þá hugsun, sem nefnd hefur verið í þessari umræðu, að það á að reyna að virkja hina atvinnulausu, það á að reyna að byggja upp trú á lífið og möguleika þess og reyna á sem fjölbreyttastan hátt að koma fólki til aðstoðar. Það sem menn segja nú um allan heim er það að menntun og símenntun sé sú leið sem best sé til þess fallin að taka á atvinnuleysinu, að gera fólk hæft til að breyta um til að leita sér nýrra möguleika vegna þess að vinnumarkaðurinn breytist gífurlega hratt með nýrri tækni.

Samkvæmt frv. til fjárlaga er reiknað með því að Atvinnuleysistryggingasjóður muni veita um 3 milljarða kr. í atvinnuleysisbætur. Inni í því eru reyndar ýmsir styrkir til átaksverkefna og annað slíkt og þessi tala hefur lækkað núna á tveimur árum um u.þ.b. milljarð sem sýnir þó að það hefur dregið verulega úr atvinnuleysinu.

En ef við lítum svo á það frv. sem er til umræðu, þá vil ég taka undir það að hér er margt sem þarf að skoða rækilega, margt sem orkar tvímælis og þarf að velta fyrir sér hvernig best verði fyrir komið. Þar vil ég fyrst víkja að því sem fram kemur í 2. gr. frv. Ég vil taka fram að ég ætla að einbeita mér að því sem mér finnst að menn þurfi að velta fyrir sér og að þeim atriðum sem ég vil gagnrýna því að tíminn er naumur.

Þá er það fyrst að nefna þessa grundvallarreglu að binda réttinn til atvinnuleysisbóta við aldurinn frá 18 ára til sjötugs. Það má segja að ef það væri grundvallarreglan hér að allir væru í skóla til 18 ára aldurs, þá gæti þetta talist eðlilegt, en ég spyr hæstv. félmrh.: Veit hann hversu margir á aldrinum 16--18 ára eru virkir á vinnumarkaði? Það er dágóður hópur. Fólk bæði hættir í skóla, flosnar upp úr skóla, fer ekki í skóla, tekur sér hlé af ýmsum ástæðum og ég vil leyfa mér að draga í efa þá hugsun sem hér kemur fram, að það sé endilega það besta fyrir alla að vera í skóla á þessum aldri. Auðvitað er það meiri hlutinn, það er mikill meiri hluti, sem betur fer, sem aflar sér menntunar, en það er líka hópur sem vill og þarf að fara út á vinnumarkaðinn. Og ég spyr: Hvað er þessum hópi á aldrinum 16--18 ára boðið upp á í íslensku skólakerfi? Menn eru að tala um það að koma upp tveggja ára brautum. Þær eru ekki komnar og hamingjan má vita hvenær þær líta dagsins ljós. Það er alltaf verið að tala um það að efla verkmenntun og starfsmenntun. Það eru engir peningar settir í það. Mér finnst ekki forsvaranlegt að skerða réttinn til atvinnuleysisbóta með þeim hætti sem hér er gert fyrr en búið er að kippa því í liðinn að þessi aldurshópur hafi eitthvert val, eigi raunverulega kost á því að afla sér starfsmenntunar. Það er ekki lausn fyrir alla að beina þeim inn í skólakerfið. Sumir eru einfaldlega búnir að fá svo yfir sig nóg af því kerfi og þá ekki síst þeir sem af ýmsum ástæðum hafa aldrei fundið sig þar og ekki ráðið við það sem þar er boðið upp á, en ég held að það verði að vera verulegur sveigjanleiki í þessum efnum. Fólk er orðið sjálfráða 16 ára gamalt og á meðan það er réttur fólks að velja milli þess að fara í skóla og fara í vinnu, þá er ekki hægt að svipta fólk á aldrinum 16--18 ára almennum réttindum á vinnumarkaði. Það verður að vera samræmi í því að menn hafi réttinn til að vinna fyrir sér og að njóta þá annarra réttinda sem vinnandi fólk hefur tryggt sér með langri baráttu.

Það eru ýmsir tímafrestir í þessu frv. og þar á meðal er þetta ákvæði um fólk sem er búið að vera atvinnulaust í tvær vikur. Ég get ímyndað mér að þetta geti gert mörgum afar erfitt fyrir. Af hverju á fólk að lifa sem er sagt upp skyndilega, t.d. fiskverkunarfólk sem allt í einu fær uppsagnarbréf með viku fyrirvara eins og þar tíðkast oft og tíðum, af hverju á fólk að lifa? Ég býst ekki við því að íslenskt launafólk yfirleitt safni miklu í sjóði til mögru áranna. Og í raun og veru gildir nákvæmlega sama um það ákvæði þar sem talað er um að ef fólk hefur haft meira en svo og svo miklar tekjur, tvöfaldar atvinnuleysisbætur, þá verði það fyrir skerðingu. Það er eins og menn reikni með því að fólk með kannski 110--120 þús. kr. laun á mánuði safni í sjóði. Þetta eru engin laun til þess að leggja til hliðar af, því miður. Það kemur alltaf að þessu sama, og kemur inn í þær viðmiðanir sem hér er að finna, að það eru launin sem eru svo lág sem einmitt speglast í því að það er hópur vinnandi fólks sem einfaldlega er undir atvinnuleysisbótum í launum. Þetta er þvílík hörmung að á þessu verður að taka.

[15:00]

Þá kem ég að því ákvæði að eitt af skilyrðunum til þess að fá atvinnuleysisbætur sé það að fólk sé tilbúið til þess að ráða sig í fullt starf. Þarna held ég að nefndarmenn, sem allir eru karlkyns, hafi ansi mikið gleymt sér yfir eðli íslensks vinnumarkaðar og því atriði að það er býsna stór hópur, og ekki síst konur, sem eru í hlutastörfum. Vil ég minna á það sem fram kom í skýrslu Þjóðhagsstofnunar um vinnumarkaðinn sem sýnir að stór hluti giftra kvenna á vinnumarkaði er undir skattleysismörkum í tekjum, um helmingur giftra kvenna, sem segir okkur það að þessi hópur er yfir höfuð í hlutastörfum eða mjög lágt launuðum störfum. Og nú spyr ég: Er það stefna hæstv. félmrh. að ýta undir það að konur og þeir sem eru í hlutastörfum --- það eru ekki eingöngu konur --- ráði sig í fullt starf eða hvað er eiginlega verið að hugsa hér? Ef þessu yrði fylgt strangt eftir þá er ég hrædd um að við yrðum að taka okkur tak bæði í skólakerfinu og dagvistarkerfinu, ef það á að fara að skikka fólk til að taka sér fullt starf.

Það stendur reyndar í frv., með leyfi forseta: ,,Úthlutunarnefnd er heimilt að víkja frá þessu skilyrði ef hinum atvinnulausa er ókleift að ráða sig í fullt starf eða ef hann hefur verið í hlutastarfi áður en hann varð atvinnulaus, enda sé hann reiðubúinn að ráða sig í a.m.k. hálft starf.``

Viðmiðunin er þessi, að vera reiðubúinn til að ráða sig í fullt starf. En það á auðvitað að vera reglan að tekið sé tillit til þess að þeir sem eru í hálfu starfi eru væntanlega í því af ákveðnum ástæðum og ef fólk missir sitt starf, hvort sem það er hálft, 75% eða hvað það nú er, þá hafi fólk rétt á atvinnuleysisbótum og þegar það leitar að vinnu, þá sé ekki verið að skikka og skerða bara af því að ekki eru aðstæður eða vilji til þess að vera í fullu starfi. Þarna þarf að vera sveigjanleiki. Það þarf að skoða eðli vinnumarkaðarins.

Þá ætla ég að koma að 5. gr. Það hefur reyndar áður verið minnst á það atriði sem þar kemur fram, um þá sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum, en í 4. tölul. 5. gr. segir m.a. að þeir sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Þetta getur verið afar erfitt að meta, þ.e. hvort fólk hafi sagt starfi sínu lausu af gildum ástæðum. Hvað eru gildar ástæður? Við skulum taka t.d. óánægju í starfi af einhverjum orsökum, en rétturinn til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 55 bótadaga í fyrsta sinn. Fólki getur gengið mjög illa að aðlagast sínum vinnustað, það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk segir starfi sínu lausu, að ekki sé talað um ef fólk lendir t.d. í einhverjum launadeilum eða einhverju sem það á kannski erfitt með að gefa upp, við skulum segja t.d. kynferðislegri áreitni. Viðkomandi vill ekki gefa upp ástæðuna eða það geta verið einhverjir erfiðleikar í því sambandi. Þetta getur verið afskaplega erfitt að vega og meta.

Þá er það 5. tölul. 5. gr., þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar. Þetta finnst mér vera afar þröngt. Við skulum hugsa okkur nemanda, hvort sem það er í framhaldsskóla, háskóla eða hvar sem er, sem hefur hugsanlega verið í sumarvinnu, er búinn að vera að vinna allt sumarið, ætlar að byrja í námi, áttar sig á því að námið á ekki við hann eða er þess eðlis --- nemandi, sem t.d. byrjar í verkfræði, áttar sig á því að hann vantar þann grunn sem þarf, hættir í námi og ætlar að ráða sig í vinnu, leitar og leitar að vinnu en fær ekki neitt. Er þetta endilega ástæða til þess að útiloka fólk ef það uppfyllir skilyrðin að öðru leyti? Skilyrðin eru þau samkvæmt 2. gr. að fólk hafi á síðustu 12 mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf. Þetta getur átt við háskólanema sem hefur verið í fullri vinnu að sumri, hann hefur nám, ákveður að hætta námi og þar með rétturinn út í veður og vind. Mér finnst þetta ekki réttlátt, ég verð nú að segja það.

Þá ætla ég aðeins að koma að 7. gr. Inn í þá tölu sem menn ganga út frá og sem hér er birt vantar reyndar þá 2% hækkun sem er verið að sækja í öðru lagafrv. en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk hjá Atvinnuleysistryggingasjóði í haust eru fullar bætur nú 52.728 kr. Það er fullur mánuður. Þetta eru alveg óskaplega lágar bætur. Þetta eru óskaplega lágar tölur þó við horfumst í augu við þá nöturlegu staðreynd að það er til fólk sem hefur ekki einu sinni þessi laun. Ég vil spyrja um rökin fyrir því að halda í þessa viðmiðun frá gildandi lögum. Töldu nefndarmenn og hæstv. ráðherrar að það væri virkilega ekki ástæða til að reyna að hífa þessar bætur aðeins upp? Ég skil að miðað við ástandið á vinnumarkaði er það erfitt ef meiningin er sú að atvinnuleysisbætur séu ekki hvetjandi til þess að fólk sé frekar á bótum en í vinnu. Og meðan ástandið er svona á vinnumarkaðnum varðandi launin, þá er þetta erfitt við að eiga vegna þess að það er svo augljóst að það þarf að fara töluvert upp fyrir þessar bætur þannig að það borgi sig ekki að vera frekar á bótum heldur en vera að vinna ef fólk þarf að kaupa sér barnagæslu, maður tekur tillit til kostnaðar við það að ferðast til og frá vinnu o.s.frv. En þetta eru samt nöturlegar tölur að horfast í augu við.

Þá er það bótatíminn. Ég skil það að auðvitað er erfitt að finna einhverja eðlilega viðmiðun, fimm ár, sex ár, við hvað á að miða? En þarna þarf líka að vera sveigjanleiki og ég tek undir það sem fram kom í máli hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að í þessu samhengi þarf sérstaklega að huga að þeim sem eru í eldri kantinum á vinnumarkaðnum og fólk sem raunverulega vill fá vinnu og leitar sér að vinnu en er því miður hafnað vegna ýmiss konar fordóma sem eru ríkjandi gagnvart þeim sem eru í eldri kantinum á vinnumarkaði. Það er ömurlegt að vera hafnað á vinnumarkaðnum. Ég þekki ekki hvaða reglur gilda um þetta í öðrum löndum. Það væri fróðlegt að við í félmn. öfluðum okkur upplýsinga um það við vinnslu málsins. Hv. þm. Hjálmar Árnason fræddi mig um það áðan að Danir væru að stefna niður í þessi fimm ár. Þeir hafa náttúrlega orðið mjög langa reynslu af langvarandi atvinnuleysi jafnvel þar sem kynslóð hefur tekið við af kynslóð. Svíar eru með miklu strangari takmarkanir, enda atvinnuleysi nýlega farið að segja til sín hjá þeim.

Ljósið er farið að blikka og nú er ég farin að sjá eftir því að við skyldum nú ekki biðja um tvöfaldan ræðutíma en það verður ekki aftur tekið. Það eru nefnilega býsna mörg atriði sem vert er að ræða, hæstv. forseti, ég vil nefna þar t.d. vikulega skráningu þeirra sem hafna úrræðum, þetta er hálfgert refsiákvæði, (Forseti hringir.) og t.d. hvort á að kveða eitthvað nánar á um skráningarreglur. En ég verð að geyma það, hæstv. forseti, til síðari ræðu minnar. Ég hef ekki nærri því komist yfir þau atriði sem ég vildi ræða, t.d. það hvort það sé rétt stefna að alþingismenn hverfi úr stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, eins og hér er gert ráð fyrir, (Gripið fram í: Þingkjörnir.) já, þingkjörnir fulltrúar Alþingis, þannig að enn er margt órætt, hæstv. forseti.