Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 17:05:49 (1395)

1996-11-19 17:05:49# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:05]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gat um það í máli mínu áðan að við yrðum að sjá fyrir endann á því hvort verið væri að færa vandann úr einu kerfinu í annað. Þessi samanburður við Evrópu sýknt og heilagt á ekki rétt á sér vegna þess að staða fjölskyldnanna í Evrópu er allt, allt önnur en staða fjölskyldna á Íslandi á seinni tímum. Fólk sem er með 16 ára unglinga eða 18 ára unglinga hefur ekki nándar nærri sömu möguleika á framfærslu þessa fólks eins og gefinn er kostur á í Evrópu. Það er staðreyndin. Og það er lífsstíll í Evrópu í gegnum áratugi að þetta fólk er heima og hefur ekki verið úti á vinnumarkaði. En ef menn ætla að gera þetta með patentlausnum sem við Íslendingar erum þekktir fyrir þá leiðir það til harmleikja annars staðar. Það er það sem ég er fyrst og fremst að benda á.

Danska kerfið er ekki samanburðarhæft við íslenska kerfið hvorki þetta fína né það sem er fyrir þá venjulegu. Það er mergurinn málsins. Ég held að allir séu sammála um það. Mönnum í Danmörku er gert kleift að rétta sig af um stundarsakir en íslenska kerfið byggir á því að ef við verðum atvinnulaus verðum við að taka sénsinn og safna skuldum ef við ætlum að halda húsinu, íbúðinni, bílnum og því sem við höfum eignast. Þessir möguleikar eru ekki fyrir hendi. Þetta er því ekki samanburðarhæft. Ég hrópa húrra fyrir því og vildi sjá samhliða einhverjar aðgerðir fyrir þetta unga fólk sem er í heimahúsum því viti menn ekki hvað þetta er stór hópur eru menn ekki í takt við þjóðina sína.