Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 17:23:45 (1400)

1996-11-19 17:23:45# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:23]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er ef til vill rétt að rifja upp að árið 1955 voru háðar mjög harðar vinnudeilur í landinu og stóðu í sex vikur. Sex vikna verkfallið var það kallað. Þetta voru hinar hörðustu vinnudeilur sem hér hafa farið fram lengi. Niðurstaðan úr þeim vinnudeilum varð m.a. sú að menn samþykktu að fallast á að aflétta þeim með 12%--15% launahækkunum en auk þess var gert ráð fyrir að stofna Atvinnuleysistryggingasjóð. Þá var litið svo á að þessi sjóður, Atvinnuleysistryggingasjóður væri stór sigur fyrir verkalýðshreyfinguna. Og það var litið þannig á æ síðan að þessi sjóður væri eign verkalýðshreyfingarinnar. Hann væri hluti af kjörum hennar. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. í upphafi máls míns: Hvernig lítur hann á þessa sögu? Lítur hann á að verkalýðshreyfingin eigi þennan sjóð? Lítur hann á að skylt sé að bera það undir stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs ef grundvallaratriðum í starfsemi sjóðsins er breytt, eins og gerð er tillaga um? Liggur fyrir afstaða stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs?

Ég vil einnig rifja upp, herra forseti, að aftur og aftur á þinginu hafa komið fram tillögur á undanförnum árum og áratugum um breytingar á lögunum um atvinnuleysistryggingar. Sem betur fer reyndi ekki mikið á þessi ákvæði. Við breyttum lögunum í grundvallaratriðum árið 1981 og sömdum um þær breytingar við ASÍ og VSÍ á þeim tíma. Það var alveg ljóst að um þær breytingar var full samstaða. Þær breytingar sem síðan voru gerðar á lögunum, t.d. með því að taka þar inn opinbera starfsmenn, urðu einnig samkomulagsatriði. Mér sýnist að menn hafi umgengist lögin með allt öðrum hætti núna. Ég vil spyrja sérstaklega að því og endurtek: Liggur það fyrir að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs hafi fallist á þær breytingar sem hér er gerð tillaga um í þessu frv.?

Ég vil einnig, hæstv. forseti, rifja upp að á þinginu árið 1992 fluttum við alþýðubandalagsmenn frv. til laga um rétt þeirra sem eru að leita sér að vinnu. Þar gerðum við ráð fyrir að endurskrifuð yrðu þrenn lög. Í fyrsta lagi lög um atvinnuleysistryggingar, í öðru lagi lög um vinnumálaskrifstofu félmrn. og þriðja lagi lög um vinnumiðlun. Á þessu máli var tekið heildstætt og, eins og getið var um fyrr í dag, hefur það verið okkar afstaða að það þyrfti að gera. Ég tel hins vegar að menn hafi kannski ekki tekið nægilega heildstætt á þessum málum úr því að farið er að hrófla við þeim á nýjan leik.

Ég vil síðan víkja að einstökum almennum atriðum og fyrst að því sem fram kom í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar að Atvinnuleysistryggingasjóður hefði verið misnotaður. Hv. þm. lét þess getið að erfitt væri að halda uppi slíkum málflutningi en það væri þó óhjákvæmilegt vegna þess að um það væru einhver dæmi. Ég spyr hv. þm. og hæstv. félmrh.: Var þetta rannsakað? Fóru fram sérstakar rannsóknir á misnotkun á Atvinnuleysistryggingasjóði? Hversu víðtækar voru þær rannsóknir? Hversu víða náðu þær? Hve margir voru þeir og hve oft misnotuðu þeir Atvinnuleysistryggingasjóð? Ég tel óhjákvæmilegt að þær upplýsingar komi fram undir umræðunum vegna þess að þær þungu ásakanir eru bornar fram af formanni þeirrar nefndar sem undirbjó frv.

Í öðru lagi vil ég víkja að einyrkjum og segja: Mér finnst afgreiðslan á þeim mjög sérkennileg í þessu frv. Við erum búin að berjast um á hæl og hnakka í mörg ár í umræðum um að tryggja þurfi bændum, trillusjómönnum og vörubílstjórum öruggan sess inni í þessu kerfi. Sá maður sem hefur haft stærst orð um þetta í þingsögu síðustu ára er hæstv. félmrh. Hann sagði reyndar við forvera sína, tvo frekar en einn held ég, að þetta væri mál sem væri hægt að leysa fyrir kvöldfréttir einn góðan veðurdag. Því miður hefur hann ekki fundið þá leið sem hann sá þá. Nú er talað um að búa til sérstakan sjóð fyrir einyrkjana. Ég verð að segja eins og er, hæstv. forseti, að ég tel algjörlega útilokað annað en að það frv. komi líka hingað núna. Ég vil beina því til hv. þm. sem sitja í hv. félmn. að mér finnst eðlilegt að ætlast til að um það mál verði fjallað jafnhliða þessum frv. Það er alveg óhjákvæmilegt. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. hvenær hann hyggist leggja það frv. fyrir. Ég vil einnig taka fram að ég tel að vel mætti hugsa sér að það yrði tekið fyrir í nefnd í drögum ef þannig slæst því það er útilokað að skilja þennan hóp eftir einu sinni enn. Mér sýnist reyndar að ef þetta frv. verður að lögum, án þess að samþykkja nýtt frv., verði staða einyrkjanna verri en hún hefur nokkru sinni áður verið vegna þess að samkvæmt þessu frv. verið að henda þeim út úr atvinnuleysisbótakerfinu. Þetta var spurning tvö; hvenær kemur það frv. og er hæstv. félmrh. sammála því að það þurfi að taka sérstaklega til meðferðar um leið og þetta?

[17:30]

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. félmrh. og hv. þm. Hjálmar Árnason: Hvað er fyrir atvinnulausa í þessu frv.? Hvað er það nákvæmlega í þessu frv. sem er fyrir atvinnulausa? Hvar er komið til móts við atvinnulausa í þessu frv.? Ég mundi vilja fá svo sem örfá dæmi því að ég hef ekkert heyrt, ekki eitt einasta dæmi um að tekið sé á kjörum atvinnulausra sem slíkra. Menn tala um að í hinu frv., sem er næst á dagskrá, sé virkari vinnumiðlun en verið hefur til þessa. Það er út af fyrir sig gott ef það er. Ég segi samt, hæstv. forseti, og fullyrði að ég tel að engin vinna sé í þessum frumvörpum jafnvel þó að þau verði að lögum, vegna þess að ekki er tekið þannig á málum.

Hins vegar er góðra gjalda vert að stilla saman vinnumiðlunina en ég verð þó að segja að ég tel orka tvímælis að setja alla vinnumiðlun undir ríkið. Þar er ég t.d. með í huga Vinnumiðlun Reykjavíkur sem hefur verið virk og hefur verið tiltölulega góð. Borgarstjórn Reykjavíkur, bæði meiri hluti og minni hluti, hefur lagt sig fram um að þróa þá hluti með sem allra jákvæðustum hætti, eins og við þingmenn Reykvíkinga reyndar þekkjum, sem heimsóttum Vinnumiðlun Reykjavíkur á sl. vetri.

Í fjórða lagi vil ég taka undir þá gagnrýni sem fram hefur komið hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur og ef til vill fleirum. Það er alveg ótrúlegt að skipa nefnd með þessum hætti. Að í henni séu eingöngu karlmenn, eingöngu annað kynið. Þetta er jafnréttisráðuneyti. Þetta er ekki hægt. Ég held að dálítið sé til í því hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að frv. beri þess merki, sérstaklega að því er varðar þann veruleika að konur eru gjarnan sá hópur á launamarkaði sem er í hlutastarfi eða broti úr starfi. Mér finnst að tæknileg uppbygging frv. sé allt of mikið miðuð við fólk í fullu starfi og ekki reynt að horfast í augu við þann veruleika að lög af þessu tagi þurfa að vera sveigjanleg ef þau eiga að endurspegla raunveruleikann á vinnumarkaðinum.

Í fimmta lagi vil ég spyrja þá forráðamenn og talsmenn frv. um afstöðu einstakra aðila. Ég hef spurt um afstöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég spyr um afstöðu Alþýðusambands Íslands. Hefur þetta verið borið upp í miðstjórn Alþýðusambands Íslands og samþykkt? Ég spyr: Hefur þetta verið borið upp og samþykkt í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga? Ég spyr vegna þess, hæstv. forseti, að gert er ráð fyrir algerri miðstýringu á vinnumiðlun í landinu. Það er gert ráð fyrir að taka hana úr höndum sveitarfélaganna og menn geta fengið stuðning hjá mér við það að skipulag vinnumiðlunar hefur að sumu leyti ekki verið nægilega gott. Og sum sveitarfélög hafa sjálfsagt staðið sig slælega í þeim efnum. En ég held að líka sé óskynsamlegt að taka frumkvæði og ábyrgð úr höndum heimaaðila með þeim hugmyndum sem hér eru uppi vegna þess að þrátt fyrir allt þekkja þeir oft betur til en aðrir.

Í sjötta lagi varðandi almennan aðdraganda þessa frv. og efni þess vil ég segja: Ég vara við því að menn séu að líkja þessu kerfi, sem á að taka hér upp, við Danmörku og Svíþjóð. Ég vara við því fyrst og fremst vegna þess að hið félagslega þjónustukerfi, sérstaklega sveitarfélaganna, er miklu lakara, miklu brotakenndara og miklu ófullkomnara en gerist í Danmörku og Svíþjóð. Staðreyndin er auðvitað sú að það fólk, sem hér um ræðir, á oft og tíðum engan kost á að velja á milli skóla, bóta eða félagslegrar aðstoðar. Það á engan kost og þess vegna tel ég að fráleitt sé að henda unglingunum út af þeim möguleikum sem þrátt fyrir allt geta falist í þessu kerfi.

Síðan vil ég víkja aðeins að einstökum efnisatriðum eftir að hafa gert grein fyrir sex almennum atriðum og segja í fyrsta lagi: Ég mótmæli því að taka unglingana út. Það er ranglátt. Og mér finnst skjóta skökku við að ríkisstjórn sem er að skera niður framhaldsskólakerfið í einu frv. skuli leggja til í öðru að unglingarnir verði teknir út af hugsanlegum atvinnuleysisbótum og þeim vísað inn í skóla sem eru að loka eða leggja á fallskatta eins og við höfum rætt. Þetta gengur ekki upp, hæstv. forseti. Hæstv. ríkisstjórn gengur á ótrúlega óskammfeilinn hátt fram í þessu efni og treystir því að við þingmenn munum ekki hvað gerist á milli umræðna. Fyrir örfáum dögum vorum við að ræða um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hvað er í því? Í því er gert ráð fyrir að lækka framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Í því er gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður beri kostnað við starfsmenntun í atvinnulífinu, sem til þessa hefur verið hjá ríkissjóði. Starfsmenntun í atvinnulífinu sem samið var um af aðilum vinnumarkaðarins. Það gengur auðvitað ekki, hæstv. forseti, að taka svona á málum og því vil ég mótmæla mjög harkalega. Ég tel fyrir neðan virðingu Alþingis að reyna að blekkja þingið með málflutningi af því tagi sem hér hefur heyrst: Já, þessir krakkar hafa nú ekki gott af því að vera á atvinnuleysisbótum. Þeir eiga bara að fara í skóla. Hvaða skóla? Skóla sem eru lokaðir eða hvað?

Í annan stað um einstök atriði í frv., sem ég vildi nefna, vík ég að litlu máli sem snertir það að þeir sem þurfa að borga meðlög standa auðvitað oft og tíðum þannig að atvinnuleysisbæturnir fara í meðlög. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysisbæturnar fari beint í meðlög og í raun gert ráð fyrir að þær séu teknar í heilu lagi og þeir aðilar sem hér um ræðir þurfa kannski ekkert endilega að vita að þeir hafi fengið þessar bætur vegna þess að þær eru ekki meðhöndlaðar sem laun. Með öðrum orðum, litið er á atvinnuleysibæturnar sem félagslegan styrk í uppsetningu þeirra mála. Mér finnst þessi meðferð á málum, sem kemur fram í athugasemdum með frv., í tölul. 9 á bls. 10 í greinargerðinni, ekki vera skynsamleg. Mér finnst hún niðurlægjandi og mér finnst líka niðurlægjandi, hæstv. forseti, að hver einasta króna sem viðkomandi maður kann að fá í ellilífeyri eða örorkulífeyri eða úr lífeyrissjóði kemur til skerðingar atvinnuleysisbótum. Með þessu er verið að undirstrika að atvinnuleysisbæturnar séu í raun félagslegur styrkur. Þetta er ekki gott, hæstv. forseti.

Það er stundum talað um að breyta þurfi jaðarsköttum, þ.e. jaðarskattaáhrifum ýmissa bóta eins og t.d. í sambandi við vaxtabætur o.fl. Hér er ekki verið að tala um 52% skatt eða 54% skatt. Hér er verið að tala um 100% skattlagningu á atvinnuleysisbætur vegna þess að fyrir hverja krónu sem fólk fær í ellilífeyri, örorkulífeyri eða lífeyri úr lífeyrissjóði lækkar um krónu í atvinnuleysisbótakerfinu. Þetta er ekki sanngjarnt. Ég er á móti þessu, hæstv. forseti, vegna þess að með þessu er verið að meðhöndla atvinnulaust fólk á annan hátt en réttlætanlegt og eðlilegt er.

Loks vil ég koma að einu atriði sérstaklega sem ég er alveg gáttaður á. Það er lækkunin á atvinnuleysisbótunum. Er tími til þess núna í miðju góðærinu að lækka atvinnuleysisbætur? Atvinnuleysisbætur geta verið núna að jafnaði 52.723 kr. á mánuði. Þá er miðað við að um sé að ræða 21,67 virka daga að meðaltali í mánuði. Það er venjulegur útreikningur á launum og hefur lengi verið. Um er að ræða 52.723 kr. á mánuði í bætur, eins og þetta er núna. Hvað á þetta að fara í? Fiskvinnslutaxtinn, eins og hann er, sem menn tala um að gæti verið miðað við þegar um er að ræða sérstaklega tekjulága einstaklinga, sem eru á lægstu töxtum, er 49.300 kr. Það er verið að lækka þetta fólk um 3.423 kr. á mánuði. Þetta er höfðingleg jólagjöf, verð ég að segja. Hæstv. félmrh. kemur helst ekki í ræðustólinn án þess að láta þess getið að þegar hann byrjaði í ráðuneytinu hafi atvinnuleysið verið 7% og núna sé það 3% eða 4%, eins og það sé allt saman honum að þakka að breytingin hafi átt sér stað. Það er að sjálfsögðu ekki heldur eru það hinar almennu kringumstæður í þjóðfélaginu. Þótt ég hafi þráspurt hv. þm. Hjálmar Árnason hver rökin séu fyrir að lækka hjá þessu fólki hef ég engin svör fengið. Og ég spyr aftur um þau. Hver er hin brýna félagslega, þjóðfélagslega réttlætisnauðsyn á að lækka þetta fólk? Ég skora á hæstv. félmrh. að sýna mér fram á að brýn nauðsyn sé fyrir efnahagslega framtíð íslensku þjóðarinnar, hvorki meira né minna, að svína af þessu fólki 3.500 kr. á mánuði. Hvað er það sem veldur því?

Þegar lögin um atvinnuleysistryggingar voru sett árin 1980 og 1981 var gengið út frá því að atvinnuleysisbæturnar væru miðaðar við dagvinnutaxta plús eitthvert meðaltal í yfirtíð plús einhver hluti af orlofi þannig að þrátt fyrir atvinnuleysið gætu menn gengið um uppréttir vegna þess að kaupið væri svipað hvað varðar láglaunafólkið og kostur væri á að fá annars staðar. Mér sýnist stefnan greinilega vera sú af Framsfl. og Sjálfstfl. að halda eigi þannig á málum að þetta fólk finni alveg örugglega að það sé sett skör lægra í þjóðfélaginu. Að það fari ekki á milli mála í tilfinningalífi þessara einstaklinga að þeir séu settir skör lægra í þjóðfélaginu. Þetta er ekki gott. Þetta er ekki skynsamlegt og kemur auðvitað af því sem nefnt var fyrr í dag að menn líta þannig á að hinn atvinnulausi sé vandamálið, hann eða hún sé vandamálið en ekki atvinnuleysið, sem er afleiðing af hinu efnahagslega kerfi sem við öll í þessari stofnun berum ábyrgð á og eigum þess vegna að hafa þá lágmarksreisn í okkar starfi að reyna að tryggja að þeir sem verða fyrir atvinnuleysinu, sem er afleiðing af því efnahagskerfi sem við kjósum að hafa, þurfi ekki einir að líða fyrir að verða atvinnulausir. Af því að atvinnuleysið er á okkar ábyrgð allra en ekki þeirra sem lenda í því.