Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 17:43:56 (1401)

1996-11-19 17:43:56# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[17:43]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég á sæti í hv. félmn. og hef fylgst með þeirri umræðu sem farið hefur fram í dag um þetta frv. sem hæstv. félmrh. hefur lagt fram um breytingar á lögum um atvinnuleysisbætur. Mér kemur verulega mikið á óvart að við þetta frv. eru gerðar athugasemdir við nánast hverja einustu grein sem einhverju máli skipta og hefði mátt gera ráð fyrir að einhver veruleg vinna hefði verið lögð í. Ég er ekkert á móti því að einstakar nefndir eins og hv. félmn. vinni mikla vinnu og sú nefnd hefur á síðasta ári unnið alveg gríðarlegt starf til að koma frumvörpum í það form að hægt væri að koma þeim í gegnum þingið. Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með það að þetta frv. sem búið er að vinna með í eitt og hálft ár skuli koma með þeim endemum að við sjáum fram á að þurfa að sitja yfir því í félmn. í næstu mánuði.

[17:45]

Ég tek svo sannarlega undir þá gagnrýni sem komið hefur fram hjá hv. þingmönnum um að það ákvæði skuli vera hér inni að það eigi að lækka atvinnuleysisbætur hjá fólki. Ég get lýst því yfir hér og nú að ég mun ekki taka þátt í því. Og ég velti því fyrir mér til hvers verið er að koma með þetta hér inn á borð og hvort það sé vegna þess að hv. formaður nefndarinnar, hv. þm. Hjálmar Árnason, lýsti því yfir í blaðaviðtali í vor að megintilgangur þessa frv. væri að afnema letingjabætur. Það hefur kannski verið tilgangurinn eða verið andinn sem sveif yfir vötnunum þegar verið var að vinna að þessu máli. Ég er mjög hissa á því að þetta skyldi koma út með þessum hætti og furða mig í sjálfu sér ekkert á því að verkalýðsforingjarnir skyldu þá ganga út. En virði það að hæstv. félmrh. tók til greina þær athugasemdir sem frá þeim komu. Það hefði greinilega þurft að taka mun meira á þeim athugasemdum sem eftir lágu því að mér sýnist, af því sem fram hefur komið hér og því sem komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra nú þegar og hv. formanni nefndarinnar, að beðið sé um að félmn. taki meira og minna á þessu máli og reyni að leiðrétta það sem aflaga hefur farið. Mér finnst sorglegt að þetta skyldi koma svona inn. Ég er ekki að fría mig af þessari vinnu, síður en svo, en hefði talið að betra hefði verið að fá að málinu fólk úr félagsstörfum, sveitarstjórnarmenn sem hafa unnið að þessu og jafnvel einhverja nefndarmenn sem hafa setið í félmn. og hafa kynnt sér þessi mál. En ég vona að þær breytingar sem koma frá hv. félmn. hljóti hljómgrunn og ég mun að sjálfsögðu vinna með allri nefndinni að því máli.